„Það er alvarlegt að forgangsröðunin innan heilsugæslunnar í dag byggi í meira mæli á eftirspurn sjúklinganna og ekki eftir því hver það er sem mest þarf á læknisaðstoð að halda. Þetta er ekki í samræmi við þær siðferðilegu meginreglur sem eiga að stýra heilsugæslunni,“ sagði ríkisendurskoðandi Svíþjóðar, Jan Landahl, um skýrslu sem fjallaði um hvernig einkarekstrarvæðing á heilsugæslunni í landinu hefði tekist. Skýrslan var gefin út í fyrra og bar yfirskriftina „Primärvårdens styrning – efter behov eller efterfrågan?“ eða „Stjórnun heilsugæslunnar – eftir þörfum eða eftirspurn?“
Á sænsku er þessi einkarekstrarvæðing, sem hófst árið 2009, kölluð „vårdval“ en á íslensku mætti tala um heilsugæsluval sem felst þá í því að hverjum sjúklingi, sem er sjúkratryggður innan almannatryggingakerfisins, fylgir ákveðið fjármagn innan kerfisins sama hvaða heilsugæslustöðvar hann ákveður að leita til. Rekstur heilsugæslustöðva fær því ekki háar upphæðir á fjárlögum hvers árs, líkt og hér á Íslandi, heldur ræðst fjárstreymi til þeirra af sjúklingafjölda. Ef sjúklingurinn leitar til ríkisrekinnar heilsugæslustöðvar þá fær viðkomandi stöð greitt fyrir heimsóknina frá sænskum sjúkratryggingum en ef sjúklingurinn leitar til einkarekinnar heilsugæslustöðvar fær sú stöð greitt fyrir heimsókn hans. Breytingin var gerð í Svíþjóð á dögum hægri stjórnar Fredrich Reinfeldts, forsætisráðherra og formanns flokksins Moderatarna, og byggði rannsókn sænsku ríkisendurskoðunarinnar því á fimm ára reynslu Svía af heilsugæsluvalinu.
Tekið skal fram að þó að breytingarnar á sænsku heilsugæslunni hafi verið innleiddar í tíð hægri stjórnar í Svíþjóð þá hefur núverandi vinstri-græna minnihlutastjórn Sósíaldemókrata og Umverfissflokksins ekki kynnt hugmyndir um að til standi að breyta þessu kerfi í því landi. Þverpólitísk sátt virðist hafa skapast um þetta kerfi í Svíþjóð.
Grundvallarbreyting á heilsugæslunni
Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra hefur nú tekið ákvarðanir um opnun þriggja nýrra einkarekinna heilsugæslustöðva á höfuðborgarsvæðinu sem eiga að keppa um viðskiptavini við aðrar stöðvar. Í kjölfarið verða fimmtán ríkisreknar og fimm einkareknar heilsugæslustöðvar á höfuðborgarsvæðinu. Kristján hefur talað fyrir þeim möguleika að taka upp svipað kerfi á höfuðborgarsvæðinu og gert hefur verið í Svíþjóð með heilsugæsluvalinu og verða þessar breytingar innleiddar á næsta ári.
Athugasemd ritstjórnar: Í prentaðri útgáfu Stundarinnar voru gerð mistök við vinnslu greinarinnar sem leiddu til þess að svör frá velferðarráðuneyti Kristjáns Þórs Júlíussonar birtust ekki með greininni í blaðinu líkt og til stóð. Þá var myndum og nöfnum álitsgjafa ruglað saman þannig að myndir af álitgjöfunum voru ekki á réttum stað með réttum textum. Þessi mistök eru ekki í greininni hér á vefnum. Hlutaaðeigandi, velferðarráðuneytið og álitsgjafarnir sem um ræðir, sem og auðvitað lesendur eru beðnir velvirðingar á þessu.
Ritstjórn Stundarinnar
sdfdsf
Athugasemdir