Jón Steinsson, hagfræðingur við Columbia-háskóla í Bandaríkjunum, furðar sig á því hvað Sjálfstæðisflokkurinn er tortrygginn í garð þeirrar lausnar að bjóða upp aflaheimildir í sjávarútvegi í stað þess að útdeila kvótanum til útgerðanna á grundvelli veiðireynslu eins og nú er gert. Hagfræðingurinn skrifaði innlegg um málið með grein sem fjallar um að meirihluti sé nú fyrir því á Alþingi, samkvæmt skoðanakönnunum, að feta uppboðsleiðina í sjávarútvegi.
„Mér finnst alltaf jafn athyglisvert hvað Sjálfstæðisflokkurinn er tortrygginn varðandi þessa markaðslausn. Af hverju skyldi það vera að markaðurinn virkaði illa í þessu tilviki en vel almennt að þeirra mati?
„Sáttanefndinni" mistókst fullkomnlega að komast að niðurstöðu sem getur verið grundvöllur sáttar. Tillögur þeirrar nefndar um svokallaða samningaleið myndi í raun bæta stöðu útgerðarinnar á kostnað þjóðarinnar með því að veita útgerðinni óuppsegjanlegan samning til langs tíma. Tillagan gengur í rauninni út á að tryggja eins vel og unnt er að ríkisstjórnir framtíðarinnar geti ekki breytt úthlutun aflaheimilda á þann veg að þjóðin fái fullt gjald fyrir afnotaréttinn af auðlindinni. Ég er ekki viss um að allir þeir sem samþykktu tillöguna hafi áttað sig á þessu á sínum tíma. En í dag vísar enginn í þessa tillögu nema þeir sem ganga erinda útgerðarinnar í þessu máli.
Það er smjörklípa að halda því fram að uppboð hafi ekki reynst vel í öðrum löndum við úthlutun á veiðiheimildum. Uppboð hafa verið notuð við úthlutun alls kyns náttúrugæða víða um heim og einnig við sölu á opinberum eignum og réttindum. Almennt hafa þau reynst vel og hafa fest sig í sessi sem algert lykiltæki í opinberri stjórnsýslu. Engum dettur í hug að selja ríkisskuldabréf á annan veg en með uppboði. Í dag er einnig gerð krafa um útboð þegar ríkið ræðst í verklegar framkvæmdir. Þetta á við um öll lönd sem ekki eru þeim mun spilltari. Önnur dæmi um uppboð af hálfu hins opinbera víða um heim eru uppboð á farsímarásum, uppboð á rétti til olíuleitar, uppboð á rétti til skógarhöggs, og svo mætti lengi telja. Það er almenn samstaða á meðal fræðimanna um að uppboð séu besta aðferðin til þess að úthluta takmörkuðum gæðum af hálfu hins opinbera. Það sem helst kemur í veg fyrir enn meiri notkun uppboða er spilling. Svo einfalt er það. Þegar uppboð eru ekki notuð hafa þeir sem eru innvígðir og innmúraðir mun meira svigrúm til þess að sölsa undir sig verðmæti á undirverði. Það er þessi spilling sem þetta mál snýst um. En stjórnarflokkarnir vilja vitaskuld þyrla upp ryki og reyna að telja fólki trú um að málið snúist um eitthvað allt annað. En það gerir það ekki. Þetta mál snýst um að viðhalda forréttindum innvígðra og innmúraðra auðmanna á kostnað almennings.
Varðandi afstöðu VG þá efast ég ekki um einlægni þeirra. En ég held að það séu mistök hjá þeim að vilja heldur fara aðra leið en uppboð. Ég hef hugsað um þetta mál í nærri tvo áratugi og komist að þeirri niðurstöðu að eina leiðin sem auðmannaklíkan mun ekki geta kollvarpað sér í hag sé uppboð. Það má vel vera að uppboð nái ekki fullkomlega öllum þeim markmiðum sem VG vill ná. En aðrar leiðir munu held ég ná enn minni árangri (mun minni). Uppboð nær þeim mikilvæga árangri að flytja auðlindarentuna til almennings án þess að fórna hagkvæmni í greininni. Það mun skila ríkissjóði 40 milljörðum króna árlega og það munar um minna þegar kemur að endurreisn velferðarkerfisins. Eru hin markmiðin sem VG vill ná virkilega þess virði að þau séu tilbúin að fórna stórum hluta þessa fjár í hendur útgerðarmanna? Og jafnvel þótt þau telja að svo sé, hafa þau raunhæfa aðra leið sem mun ná meiri árangri á öðrum sviðum? Ég efast mjög um það.“
Athugasemdir