„Íslensk útlendingayfirvöld gættu ekki hófs í meðferð umsóknar hælisleitandans Eze eins og þeim hefði borið að gera,“ segir Katrín Theódórsdóttir, lögmaður Eze Okafor, hælisleitenda frá Nígeríu, sem hefur síðasta árið haldið til í Svíþjóð á meðan umsókn hans um dvalarleyfi af mannúðarástæðum er tekin fyrir hér á landi. Hún segir að Útlendingastofnun hafi verið skylt að taka tillit til hagsmuna og réttinda Eze við afgreiðslu umsóknar hans um dvalarleyfi hér á landi af mannúðarástæðum.
„Ég tel að það hafi ekki verið gert enda hefði Útlendingastofnun náð sama markmiði með því að gefa manninum tóm til að ganga frá málum sínum hér á landi eftir 4ra ára dvöl sem rekja má til þess að málið hafði tafist í meðförum íslenskra stjórnvalda. Ef dvöl hans hér á landi hafi verið slíkur þyrnir í augum Útlendingastofnuanr hefði starfsömmun stofnunarinnar verið í lófa lagið að flýta afgreiðslu umsóknarinnar sem var að koma fyrst núna. Í þessu máli vógu hagsmunir Eze sem njóta verndar í stjórnarskrá Íslands og alþjóðlegum mannréttindasáttmálum lítils jafnvel þótt hagsmunirnir snúi að frelsi hans og friðhelgi.“
Líkt og Stundin greindi frá í síðustu viku hefur Útlendingastofnun synjað umsókn Eze um dvalarleyfi af mannúðarástæðum en stofnunin telur að honum sé ekki hætta búin í heimalandinu. Eze flúði Nígeríu árið 2011 eftir að liðsmenn Boko Haram hryðjuverkasamtakanna höfðu veitt honum alvarlegt stungusár og drepið bróður hans vegna kristinnar trúar þeirra í borginni Maiduguri í norð-austurhluta Nígeríu. Útlendingastofnun telur kristna í Nígeríu hins vegar ekki verða fyrir ofsóknum eða áreiti að því er fram kemur í nýlegum úrskurði stofnunarinnar í hælismáli Eze. Katrín staðfestir í samtali við Stundina að hún hyggist kæra þessa ákvörðun Útlendingastofnunar til kærunefndar útlendingamála fyrir hönd Eze.
Athugasemdir