Þessi grein birtist upphaflega í Stundinni fyrir meira en 10 árum.

„Þá vissi ég að Bjarmar hefði verið drepinn“

Tveim­ur drengj­um var drekkt í Glerá fyr­ir 25 ár­um síð­an. Mæð­ur þeirra segja frá at­burð­un­um í við­tali við Press­una. Mað­ur­inn sem varð þeim að bana var sjálf­ur barn að aldri: „Ég get ekki ímynd­að mér þann sárs­auka sem ég olli þeim,“ seg­ir hann.

„Þá vissi ég að Bjarmar hefði verið drepinn“

„Ég hugsa mjög oft til drengjanna og það sem ég gerði. Í hvert sinn sem ég les um eða heyri í fréttum að barn hafi látist fæ ég sting í magann,“ segir maður sem varð tveimur börnum að bana þegar hann var sjálfur barn að aldri. 

Pressan fjallar um málið í dag, þar sem rætt er við manninn, mæður drengjanna sem létust og fagaðila sem komu að málinu á sínum tíma. Maðurinn er ekki nafngreindur í viðtalinu, en hann ólst upp við grimmilegt ofbeldi og segir að það hafi verið gripið inn í aðstæður of seint. Eftir atburðina var hann vistaður á barnageðdeild og á heimili fyrir börn í vanda. Hann fluttist síðar til Bandaríkjanna og segir nú sögu sína í von um að það verði aðstandendum drengjanna til hjálpar. 

Getur ekki ímyndað sér sársaukann

Atburðirnir áttu sér stað fyrir 25 árum. Tveir sjö ára drengir, þeir Bjarmar Smári Elíasson og Hartmann Hermannsson, drukknuðu í Glerá á Akureyri með stuttu millibili og í fyrstu var talið að um slys hefði verið að ræða. Eftir seinna dauðsfallið kom í ljós að þeim hafði verið hrint út í ána.

„Ég hugsa um þá í hvert skipti sem einhver talar um móðurást. Það versta sem getur gerst í lífinu er að missa barn, og þegar ég heyri af dauðsföllum, þá kemur þessi sára minning upp í hugann. Þetta gerist nánast hvern einasta dag,“ segir maðurinn. „Oft vildi ég að foreldrarnir og fjölskyldurnar fyrirgæfu mér og ég gæti fundið leið til að fyrirgefa sjálfum mér. En hvernig get ég ætlast til þess þegar ég get ekki ímyndað mér þann sársauka sem ég olli þeim.“

„Oft vildi ég að foreldrarnir og fjölskyldurnar fyrirgæfu mér og ég gæti fundið leið til að fyrirgefa sjálfum mér.“

Kom aldrei aftur heim

Bjarmar Smári
Bjarmar Smári Annar drengjanna sem lést var Bjarmar Smári Elíasson. Móðir hans, Bjarnheiður Ragnarsdóttir, segir erfitt að vita af manninum sem varð honum að bana frjálsum ferða sinna.

Bjarnheiður Ragnarasdóttir er móðir Bjarmars Smára Elíssonar sem var sjö ára gamall þegar hann lést þann 5. Júlí 1989. Hún man nákvæmlega hvað gerðist þennan dag, þegar Bjarmar fór út að leika sér og kom ekki aftur heim. Í viðtali við Presunna lýsir hún biðinni og því þegar lögreglan bankaði upp á og tilkynnti henni að sonur hennar hefði fallið í Glerá, en væri enn ófundinn.

Síðar um nóttina bankaði prestur upp á og sagði að sonur hennar hefði fundist í ánni. Hann væri látinn. Bjarnheiði grunaði strax að ekki hefði verið um slys að ræða þar sem sonur hennar var alltaf svo varkár og lítill í sér. Tæpu ári síðar drukknaði annar drengur í Gleránni, drengur sem var á svipuðum á aldri og Bjarmar. „Þá vissi ég að Bjarmar hefði verið drepinn. Þetta gat ekki verið tilviljun.“

Gerandinn bjó við ofbeldi

Fréttirnar voru annað reiðarslag fyrir fjölskylduna. Eftir á að hyggja var erfitt að vita af því að gerandinn hafði búið við vanrækslu og ofbeldi sem gerði það að verkum að hann hafði meitt önnur börn, og að margir hefðu haft vitneskju um að hann gæti verið hættulegur öðrum börnum. Hún upplifði það eins og málið væri þaggað niður.

„Mér fannst eins og einhvern veginn væri reynt að útiloka þetta. Kannski var það til að hlífa fjölskyldu stráksins. Eins og ég upplifði þetta var samúðin miklu frekar hjá honum heldur en fórnarlömbunum.“

Reiðin situr í henni. Segist hún ekki efast um að hægt hefði verið að koma í veg fyrir atburðina ef yfirvöld hefðu gripið fyrr inn í. „Barn sem er fjöldamorðingi hættir ekki. Ég vil trúa því að þessi brenglun í höfðinu sé þarna frá fæðingu. Ég vil ekki trúa því að það sé samfélagið sem geri fólk að morðingjum. Ég get ekki ímyndað mér það. Fólk talaði um að þetta hefði gerst vegna þess að hann hefði átt svo skelfilega barnæsku. En það eru margir sem ganga í gegnum hryllilega hluti í æsku án þess að það geri þá að morðingjum.“ 

„Ég vil ekki trúa því að það sé samfélagið sem geri fólk að morðingjum. Ég get ekki ímyndað mér það.“

Lögreglan trúði ekki frásögninni 

Sólveig Austfjörð Bragadóttir er móðir Hartmanns Hermanssonar, sem lést þann 2. maí 1990. Hartmann var þá sjö ára. Hún fékk símtal frá skólanum þar sem henni er greint frá því að hann sé týndur og hún spurð hvort hún vissi hvar hann gæti verið. Síðar um daginn fannst hann látinn í Gleránni. Síðar kviknaði grunur um að sami drengurinn hefði orðið báðum strákunum að bana. Í bæði skiptin hafði hann skipulagt ratleik sem miðaði að því að koma drengjunum að ánni, segir hún. Drengurinn viðurkenndi að hafa orðið þeim að bana.

Í viðtali við Pressuna setur hún spurningamerki við ákveðið atriði í málinu: „Áður en Hartmann deyr þá hafði þessi strákur verið búinn að segja öðrum strák, skólafélaga sínum, frá því hvað hann gerði við fyrri drenginn, hann Bjarmar. Ég veit að sá drengur fór niður á lögreglustöð og sagði frá því hvað hann hafði heyrt. Það var ekki hlustað á hann og ekkert aðhafst,“ segir hún og bætir við: „Þetta er í raun það eina sem ég hefur virkilega angrað mig í gegnum árin.“

„Hann var vanur að horfa upp og segja hvað hann langaði mikið til að fara upp í himininn og til stjarnanna.“

Hann langaði til himins

Hún ber ekki kala til mannsins. „Ég kenndi þessum strák aldrei um þetta. Ég hef alltaf litið á það þannig að hann hafi fyrst og fremst verið óskaplega veikur. Ég var aldrei reið út í hann.“

Þá segir hún frá minningu sem hún á af Hartmanni sem hjálpar henni í sorginni. „Hann var vanur að horfa upp og segja hvað hann langaði mikið til að fara upp í himininn og til stjarnanna. Það er gaman að hugsa um það núna.“

Kjósa
0
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið

Ungfrú Ísland Teen, útlitsstaðlar og tíðarandi fegurðarsamkeppna
6
Samantekt

Ung­frú Ís­land Teen, út­lits­staðl­ar og tíð­ar­andi feg­urð­ar­sam­keppna

Feg­urð­ar­sam­keppn­in Ung­frú Ís­land Teen hef­ur hlot­ið um­deilda at­hygli ný­lega. En í ár er í fyrsta sinn keppt í ung­linga­flokki. Sól­rún Ósk Lár­us­dótt­ir sál­fræð­ing­ur tel­ur mik­il­vægt að ýta und­ir aðra þætti fólks en út­lit. Nanna Hlín Hall­dórs­dótt­ir heim­spek­ing­ur seg­ir feg­urð­ar­sam­keppn­ina mögu­lega birt­ing­ar­mynd um bak­slag í jafn­rétt­is­mál­um.

Mest lesið

Mest lesið í vikunni

„Ég er mjög stolt af því að hafa tekið þennan slag“
1
Fréttir

„Ég er mjög stolt af því að hafa tek­ið þenn­an slag“

Mann­rétt­inda­dóm­stóll Evr­ópu komst í dag að þeirri nið­ur­stöðu að ís­lenska rík­ið hefði ekki brot­ið á Bryn­dísi Ásmunds­dótt­ur. Hún seg­ir skrít­ið að tala um tap þeg­ar Mann­rétt­inda­dóm­stóll Evr­ópu veitti henni áheyrn. Nú geti hún loks náð and­an­um. Mark­mið­um um að vekja máls á brota­löm­um í ís­lensku rétt­ar­kerfi hafi náðst, ekki síst þeg­ar sig­ur vannst í öðru mál­inu.

Mest lesið í mánuðinum

„Ég er mjög stolt af því að hafa tekið þennan slag“
6
Fréttir

„Ég er mjög stolt af því að hafa tek­ið þenn­an slag“

Mann­rétt­inda­dóm­stóll Evr­ópu komst í dag að þeirri nið­ur­stöðu að ís­lenska rík­ið hefði ekki brot­ið á Bryn­dísi Ásmunds­dótt­ur. Hún seg­ir skrít­ið að tala um tap þeg­ar Mann­rétt­inda­dóm­stóll Evr­ópu veitti henni áheyrn. Nú geti hún loks náð and­an­um. Mark­mið­um um að vekja máls á brota­löm­um í ís­lensku rétt­ar­kerfi hafi náðst, ekki síst þeg­ar sig­ur vannst í öðru mál­inu.

Mest lesið í mánuðinum

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár

Loka auglýsingu