Hannes Hólmsteinn Gissurarson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands, telur að trúgirni gagnvart ásökunum standi í beinu sambandi við hnignun trúarinnar og siðrof í íslensku samfélagi. Þá heldur hann því fram að boðorðin tíu úr Gamla testamentinu séu á meðal meginstoða borgaralegs skipulags.
Þessar skoðanir viðrar Hannes á Facebook-síðu sinni en talsvert hefur verið fjallað um nauðgunarmál og meðferð þeirra hjá lögreglu í fjölmiðlum undanfarna daga.
„Tvær manntegundir, náskyldar, hafa sprottið upp eftir bankahrunið og siðarofið: netormar, sem reyna að naga í sundur þrjár meginstoðir hins borgaralega skipulags (trúna á rétt og rangt, boðorðin tíu og Fjallræðuna; eignarréttinn; fjölskylduna), og ásökunardólgar, sem slengja fram hverri ásökuninni af annarri og æsa upp trúgjarnt fólk,“ skrifar Hannes og bætir við: „Líklega stendur trúgirni í beinu sambandi við hnignun trúarinnar og siðarofið. Þeir, sem engu trúa, trúa öllu.“
Athugasemdir