Theódóra Þorsteinsdóttir, oddviti Bjartrar framtíðar í Kópavogi og formaður bæjarráðs, er hlynnt því að bæjarskrifstofur Kópavogsbæjar flytji í Norðurturn Smáralindar. Óeining er um málið í bæjarstjórninni þar sem Sjálfstæðisflokkur og Björt framtíð mynda meirihluta. Er forseti bæjarstjórnar, Margrét Friðriksdóttir úr Sjálfstæðisflokki, á móti flutningunum og telur Sverrir Óskarsson úr Bjartri framtíð að skoða eigi fleiri möguleika áður en kaupin á húsnæðinu í Norðurturni ganga í gegn.
Stundin ræddi við Theódóru um málið. Hún vísar til stjórnsýsluúttektar frá 2011 þar sem bent er á óhagræði í núverandi húsnæði. Efla megi starfsemina með því að koma henni allri undir eitt þak. „Skrifstofan er í þremur húsum á átta hæðum, með sjö kaffistofur og í 1000 fermetrum of stóru húsnæði. Þetta segir mér að hægt sé að gera betur,“ segir hún og bætir því við að ljóst sé að ef skrifstofurnar yrðu áfram að Fannborg þyrfti að gera endurbætur á húsnæðinu. Slíkt gæti kostað hátt í 500 milljónir króna. „Þá stöndum við frammi fyrir þeirri spurningu: á að laga húsið fyrir hálfan milljarð án þess að ráða bót á óhagræðinu eða eigum við að skoða eitthvert annað húsnæði?“
Athugasemdir