Sunna Valgerðardóttir, blaðakona sem starfað hefur á Kjarnanum undanfarið ár, hefur verið ráðin svæðisstjóri RÚVAK og mun bera ábyrgð á fréttaflutningi af landsbyggðinni í útvarpi, sjónvarpi og á vefnum.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá RÚV. Mun Sunna leiða vinnu sem miðar að því að efla starfsemi RÚV á landsbyggðinni, þróun og uppbyggingu til framtíðar. „Svæðisstjóri stýrir starfsemi RÚV á Akureyri sem og annarri starfsemi á landsbyggðinni.“
Sunna hættir á Kjarnanum þar sem hún hefur sinnt fréttaskrifum og frétta– og ritstjórnarstörfum um nokkurt skeið.
„Hún var samskiptasérfræðingur og upplýsingafulltrúi Orkuveitu Reykjavíkur árin 2015–2016, vann sem fréttamaður á fréttastofu RÚV á árunum 2013–2015 og sem blaðamaður á fréttadeild Fréttablaðsins árin 2009–2013. Hún er með BA-gráðu í nútíma– og fjölmiðlafræði frá Háskólanum á Akureyri og diplóma í margmiðlunarhönnun frá Odense Techniske Skole.
Sunna hlaut Blaðamannaverðlaun BÍ árið 2013 fyrir umjöllun ársins,“ segir í fréttatilkynningunni en Sunna er ein þriggja kvenna sem ráðnar voru í stjórnunarstöður hjá RÚV í dag.
Þóra Margrét Pálsdóttir hefur verið ráðin mannauðsstjóri en áður hefur hún starfað sem mannauðsstjóri Verkfræði- og náttúruvísindasviðs Háskóla Íslands frá 2009 og hefur verið hópstjóri mannauðs- og samskiptamála sviðsins frá 2013.
Þá vann hún sjálfstætt við ráðgjöf um mannauðsmál og vinnusálfræði, auk ýmissa verkefna bæði hér á landi og í Berlín þar sem hún bjó lengi.
Þóra Margrét tekur við af Andreu Róbertsdóttur sem starfað hefur sem mannauðsstjóri í miklu breytingaferli sem átt hefur sér stað síðustu tvö og hálft ár hjá RÚV.
Þá hefur Helga Lára Þorsteinsóttir verið ráðin safnastjóri RÚV. Hún hefur unnið hjá Listasafni Reykjavíkur frá 2002 og gegnt stöðu deildarstjóra safnadeildar Listasafnsins frá árinu 2008.
Samhliða því hefur hún haldið fyrirlestra og kynningar á starfi og verkum safnadeildar Listasafns Reykjavíkur við HÍ og LÍ og var stundakennari í safnafræði við Félagsvísindadeild HÍ árin 2007–2009. Áður vann hún á Minjasafni Reykjavíkur og Samtímasafninu í Helsinki, Kiasma.
Athugasemdir