Á laugardaginn verður stríðinu í Sýrlandi mótmælt, bæði á Akureyri og í Reykjavík. Sýrlensk fjölskylda sem er frá Aleppo hóf mótmælin um síðustu helgi á Akureyri, þar sem þau búa, og stendur nú til að endurtaka leikinn.
Elísabet Jökulsdóttir, rithöfundur og fyrrum forsetaframbjóðandi, átti frumkvæðið að því að mótmælt yrði í Reykjavík. Segir hún að aðgerðir fjölskyldunnar fyrir norðan hafi orðið til þess að hún hrökk í gang og fór að skipuleggja mótmæli hér fyrir sunnan. „Ég er búinn að vera að pæla í því hvað sé hægt að gera. Það verður að gera eitthvað. Ekki hægt að horfa á þessi börn drepin án þess að grípa til aðgerða.“ Segist hún upplifa fréttaflutning af ástandinu andlega niðurbrjótandi. „Þessi vanmáttartilfinning sem maður fær, að maður geti ekkert gert. Hún brýtur fólk niður, ekki bara fólkið í Aleppo, heldur líka okkur sem horfum á þetta.“
Segir hún máttleysið hafa verið orðið slíkt að hún hafi talið að einn mótmælafundur myndi ekki breyta neinu, „og þegar maður hugsar þannig þá er það hættulegt. Þegar allt er orðið tilgangslaust. Einhver sagði að þegar fólki finnst ekki taka því að mótmæla þá er ástandið orðið mjög alvarlegt.“ Hún hefði svo gert sér grein fyrir því að mótmæli væru einfaldlega nauðsynleg. „Þá erum við bara að gera hið gagnstæða, við söfnumst saman í friði og sýnum að það sé hægt. Sýnum að við getum farið út úr húsinu, farið út úr höfðinu á okkur og farið á nýjan stað og safnast þar saman og verið þar saman, í staðin fyrir að vera ein í húsi með okkar áhyggjur og sorg og reiði.“ Loftárásir og dauðsföll síðustu vikna séu algjörlega ólíðandi ástand. „Það er skotið á hjálparlestir, spítala, þvert á vopnahlé og það er ekkert heilagt. Börn, allt niður í nýfædd börn. Þetta er vitstola, this crazy war, þetta er vitstola stríð. Það er þýðingin á þessu.“
Fjölskyldan flúði Aleppo til Akureyrar
Fjölskyldufaðirinn sem hóf mótmælin síðasta laugardag heitir Khattab Mohammad. Hann var enskukennari áður en stríðið hófst, en fjölskyldan bjó í borginni Aleppo, þar sem átökin hafa verið hvað hörðust. Segir hann Íslendinga hafa tekið mjög vel á móti þeim síðan þau komu í janúar síðastliðnum. „Fólk er mjög kærleiksríkt og landið er frábært. Veðrið er eins og það er, ólíkt því sem við eigum að venjast, en okkur hefur verið mjög vel tekið.“
Segir Khattab Aleppo hafa verið dásamlegan stað fyrir stríðið. „Þetta var höfuðborg viðskipta í Sýrlandi. Ein blómlegasta borg landsins, full af fólki. Þarna bjuggu 5 milljónir. Hún var full af lífi. En þegar fólkið fór að mótmæla al-Assad [innsk.blm forseta Sýrlands] fór leynilögreglan á stjá. Fólk, ungt fólk og börn fóru að deyja, drepin fyrir það eitt að mótmæla ríkisstjórninni. Þá fór lífið á hvolf. Þegar við yfirgáfum borgina í lok 2012 var lífið orðið mjög erfitt.“
Hann segir loftárásir á borgina og andlát saklausra borgara nú vera daglegt brauð. „Því er haldið fram að þarna séu hryðjuverkamenn, en ég veit ekki afhverju því er haldið fram. Flest fólkið í Aleppo er óbreyttir borgarar sem gera engum mein.“
Fjölskylda Khatteb telur níu manns. „Ég og konan mín, móðir mín og sex börn.“ Segjast þau ætla að halda áfram að mótmæla, því eitthvað verði að gera. „Við verðum að gera eitthvað fyrir þetta saklausa fólk sem er ekki hluti af þessu vitstola stríði. Svo fann ég fyrir stuðningi vina minna hér á landi og þau hvöttu mig til þess að mótmæla.“ Segist hann hafa fundið fyrir miklum stuðning fyrir málstað friðar hér á landi. „Mannúðin er mjög mikil í íslensku þjóðarsálinni. Íslendingarnir hafa borið ástandið í Aleppo saman við það ef við horfðum upp á saklausa manneskju drepna af glæpamanni, þá ættum við að taka stöðu gegn þeim glæp. Það er það sem við erum að gera. Íslendingar vilja segja frá því að dráp á saklausu fólki er glæpur. Þess vegna krefjumst við þess að þessu vitstola stríði sé hætt. Venjulegt fólk verður að láta í sér heyra.“
Mótmælt verður klukkan 15:00 á Austurvelli í Reykjavík og kl 17:00 á Ráðhústorginu á Akureyri, en einnig verður mótmælt víðar um heim um alla helgina.
Athugasemdir