Norsk stjórnvöld halda úti síðu á Facebook þar sem þeir reyna að fæla flóttamenn frá því að koma til landsins. Síðan, sem ber heitið „Strangari reglugerðir varðandi flóttamenn í Noregi“ var stofnuð 6. nóvember í fyrra. Fyrsta tilkynningin sem sett var inn á síðuna, daginn sem hún var opnuð, listar upp reglugerðir sem stjórnvöld hafa sett á til þess að hefta flæði flóttamanna til Noregs. Þar kemur fram að bætur til flóttafólks verði minnkaðar um 20%, að tíminn sem fólk þarf að hafa verið í Noregi til þess að fá varanlegt dvalarleyfi verði lengdur úr þremur árum í fimm, í staðinn verði gefin út tímabundin dvalarleyfi og allar tilraunir reyndar til að senda fólk úr landi, og að lög sem auðvelda sameiningu fjölskyldna flóttafólks verði þrengd.
Fyrstu innleggin á síðunni eru á ensku, en nokkrum dögum síðar fóru að birtast innlegg á öðrum tungumálum, bæði rússnesku, norsku og arabísku. Langflest innlegg núna eru á arabísku, og er það alltaf vísað í síður norskra stjórnvalda, þar sem sagt er frá hertum reglum, slæmum aðbúnaði flóttafólks í Noregi, og frásagnir af flóttamönnum sem hafa verið fluttir úr landi.
Matargjafir útiloka frekari aðstoð
Á síðunni er vísað í upplýsingar stjórnvalda um að flóttafólk sem komi frá Rússlandi verði sent aftur þangað, einnig verði allir þeir sem ekki hafi undir höndum vegabréf og nákvæm skjöl til að skýra ferðir sínar sendir til baka. Sérstaklega er tekið fram að flóttafólk fái ekki peninga frá stjórnvöldum, en í staðin kort sem einungis er hægt að nota til þess að versla mat, og ekkert annað. Flóttafólk sem þiggur matargjafir frá flóttamannabúðum útiloki með því frekari aðstoð frá stjórnvöldum.
40 breytingar á norskri löggjöf, sem allar miða að því að “þrengja flóttamannalöggjöfina og gera það óaðlaðandi að sækja um hæli í Noregi”
Í byrjun janúar á þessu ári var svo tilkynnt um 150 blaðsíðna skjal, sem inniheldur 40 breytingar á norskri löggjöf, sem allar miða að því að “þrengja flóttamannalöggjöfina og gera það óaðlaðandi að sækja um hæli í Noregi”. Einnig er tekið fram, á nokkrum mismunandi tungumálum, að vegna hertrar löggjafar séu flóttamenn í auknum mæli að snúa frá landinu.
Þremur dögum eftir að síðan var opnuð kom inn á hana tilkynning um að öllum kommentum við færslur á henni verði eytt, vegna óviðeigandi ummæla sem þar hafi komið fram.
Athugasemdir