Breytingartillaga umhverfisráðherra við rammaáætlun var samþykkt með 41 atkvæði gegn átta á Alþingi í vikunni. Þannig færist Hvammsvirkjun úr biðflokki í nýtingarflokk, en þetta er í samræmi við tillögu verkefnastjórnar rammaáætlunar.
Allir þingmenn Vinstri grænna og einn þingmaður Bjartrar framtíðar, Róbert Marshall, lögðust gegn tillögunni. Hins vegar greiddu átta stjórnarandstæðingar atkvæði með henni. Þetta eru þingmenn Samfylkingarinnar, þau Árni Páll Árnason, Oddný G. Harðardóttir, Helgi Hjörvar, Valgerður Bjarnadóttir og Össur Skarphéðinsson; úr Bjartri framtíð þau Brynhildur Pétursdóttir og Eldar Ástþórsson og loks Jón Þór Ólafsson úr Pírötum. Birgitta Jónsdóttir og Helgi Hrafn Gunnarsson Píratar sátu hjá, auk Óttars Proppé úr Bjartri framtíð.
„Við höfum fallist á þau rök sem færð hafa verið fram um flutning Hvammsvirkjunar í nýtingarflokk. Það er mikill sigur fyrir þá umgjörð sem við höfum byggt með lögum hér í landinu um vernd og nýtingu náttúruverðmæta sem felst í því að stjórnarmeirihlutinn skuli hafa dregið til baka breytingartillögur sem hann reyndi að hnoða hér í gegn þvert á lögbundna ferla trekk í trekk síðastliðinn vetur,“ sagði Árni Páll Árnason formaður Samfylkingarinnar, þegar greidd voru atkvæði um málið.
Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, sagðist hins vegar leggjast gegn flutningi Hvammsvirkjunar í nýtingarflokk, enda teldi hún að náttúran ætti að njóta vafans.
Athugasemdir