Magnús Ver Magnússon aflraunamaður krefst þess að fá 10 milljónir króna í bætur vegna símhlerana lögreglu sem stóðu í 34 mánuði. Magnús, sem var sterkasti maður heims, telur aðgerðir og eftirlit lögreglu hafa verið mannréttindabrot, ólöglegt og meiðandi. Krafan er tekin fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag.
Málið er rakið til þess að Magnús Ver fékk símtal frá lögreglunni í ágúst síðast liðnum. Þar var honum tilkynnt að lögreglan hefði hlerað síma hans og komið fyrir hlerunarbúnaði og eftirfararbúnaði í bifreið hans. Þannig gat lögreglan fylgst með öllum hans ferðum. Magnús krafði lögreglumanninn um frekari upplýsingar en var þá ráðlagt að fá sér lögmann.
Eftirlit lögreglunnar stóð í tæp þrjú ár, eða frá því í janúar 2012 til október 2014. Þetta var vegna grunsemda um að Magnús Ver hefði átt aðild að stórfelldu fíkniefnasmygli.
Athugasemdir