Kolbrún Halldórsdóttir, fyrrverandi umhverfisráðherra og þingkona Vinstri grænna, lenti upp á kant við Steingrím J. Sigfússon, formann flokksins, vegna ummæla um olíuborun á Drekasvæðinu árið 2009. Þetta kemur fram í í viðtalsbókinni Frú ráðherra eftir Eddu Jónsdóttur og Sigrúnu Stefánsdóttur. Bókin kemur út í tilefni 100 ára afmælis kosningaréttar kvenna og er þar rætt við Kolbrúnu og nítján aðrar konur sem setið hafa á ráðherrastóli.
„Kosningabaráttan var strembin. Flokkarnir voru að berjast fyrir lífi sínu og þegar einungis voru þrír dagar til kosninga tók fréttamaður Stöðvar 2 við mig örlagaríkt viðtal um útboð leyfa til rannsókna á Drekasvæðinu,“ segir Kolbrún þegar rætt er um kosningabaráttuna í aðdraganda þingkosninganna 2009. Kristján Már Unnarsson, fréttamaður á Stöð 2, óskaði eftir afstöðu umhverfisráðherrans til undirbúnings olíuleitar í Norður-Íshafinu.
„Ég svaraði auðvitað eins og sönnum umhverfisráðherra bar, sagði okkur skylt að standa vörð um hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar og að hugmyndir um olíuborun færu á svig við þau markmið sem við hefðum sett okkur í loftslagsmálum. Það væri óðagot fólgið í því að bjóða út þessi leyfi og það samrýmdist ekki stefnu VG.“ Viðbrögðin létu ekki á sér standa: „Það varð allt brjálað.
Athugasemdir