Stefán Karl Stefánsson leikari reyndist vera án meins í sneiðmyndatöku í síðustu viku, en hann greindist með alvarlegt gallgangakrabbamein síðasta haust.
Stefán Karl, sem var í forsíðuviðtali við Stundina í desember, ásamt eiginkonu sinni Steinunni Ólínu Þorsteinsdóttur, greinir frá niðurstöðum sneiðmyndatöku á Facebook-síðu sinni, en þar segir hann einnig frá því að hann muni undirgangast fyrirbyggjandi geislameðferð á næstunni.
„Í stuttu máli þá er ekkert illt að sjá heldur þvert á móti hefur allt tekist vel upp, aðerðin sem framkvæmd var á mér skilaði tilætluðum árangri sem var að fjarlægja æxlið og nærumhverfi til þess að losa mig tímabundið eða alveg við þennan óvelkomna gest. Ég hef verið að undirgangast lyfjameðferð sem hefur gengið ágætlega að undanskyldum leiðinda aukaverkunum með tilheyrandi óskemmtilegheitum en ég er viss um að margir hafa það verr en ég. Í næstu viku fer ég í mína síðustu lyfjameðferð í bili og við tekur rannsóknir og undirbúningur fyrir geislameðferð sem hefst um 3 vikum síðar, með undirbúnigi sem tekur um tvær vikur. Þessi geislameðferð er öðruvísi en margar aðrar þar sem lyf eru líka veitt á meðan á geislum stendur. Mér skilst að þessi tiltekna meðferð sem ég er að fara í hafi ekki verið gerð hér á landi áður svo ég er vissulega spenntur að vera einskonar tilraunardýr,“ segir hann.
Stefán Karl þakkar samborgurum sínum fyrir stuðninginn í veikindunum. „Að öðru leiti líður mér vel, takk fyrir allar kveðjurnar og stuðninginn eins og alltaf, handaböndin úti í búð, klappið á bakið og fallegu brosin sem maður fær hvar sem maður kemur, það kemur mér svo sannarlega í gegnum daginn með jákvætt hugarfar og tilhlökkun að vakna einn dag í einu með fjölskyldunni, vinum mínum og ykkur öllum.“
Í viðtali við Stundina í desember lýstu Stefán og Steinunn Ólína áhrifum þess fyrir hann og fjölskylduna að hann skyldi greinast með krabbamein sem er í flestum tilfellum banvænt. Aðeins 10 til 20 prósent sem greinast með gallgangakrabbamein geta losnað við meinið með skurðaðgerð. Þau ákváðu að fara leið hreinskilninnar og tjá sig frjálst um veikindin.
Hreinskiptin umræða um veikindi
Eftir að þau sögðu opinberlega frá veikindunum brást samfélagið við með sáluhjálp handa þeim í kommentakerfum, í skilaboðum á Facebook og úti á götu. „Alls staðar þar sem ég kem. Menn hafa skrúfað niður rúðuna á rauðu ljósi og sagt: „Ég sé að þú ert kominn út í umferðina. Góður! Gangi þér vel!“ Ég segi bara: „Já, takk!“ Og maður fer glaður á næsta fund. Það er mín áfallahjálp,“ lýsti Stefán Karl í viðtalinu við Stundina.
„Góður! Gangi þér vel!“
Hann segist ekki hafa viljað leyna veikindunum, enda sé enginn skömm að því að vera með krabbamein. „Hérna áður fyrr var skömm að vera veikur. Skömm að vera veikur eins og það er skömm að vera fátækur í góðæri. „Ertu aumingi?“ Þú ert hálfur maður, það er ekkert hægt að nota þig í vinnu. Þannig að það er ekkert skrítið að hérna áður hafi fólk verið að leyna veikindum sínum. Því fólk getur verið dæmt af þeim.“
„Þú lifir bara dag fyrir dag“
Stefán Karl sagði auk þess frá því að hann hefur reynt að halda lífi sínu áfram óröskuðu og óháðu krabbameininu að öðru leyti en óumflýjanlegt er. „Að fá svona greiningu er ekkert öðruvísi en aðrir dagar að því leytinu til að þú lifir bara dag fyrir dag. Þú verður bara að gera það, sama hvort þú ert með greiningu á krabbameini eða ekki. Þú verður bara að lifa hvern dag fyrir sig og láta honum nægja sína þjáningu, og reyna bara að láta gott af þér leiða. Láta ekki kæfa þig og banna þér að tjá þig, vera gagnrýninn, vera sanngjarn, vera sjálfum þér samkvæmur og taka líka sénsa og áhættur, gera mistök, læra af þeim, allt þetta. Þetta breytist ekkert, þó þú greinist með krabbamein.“
Viðtalið má lesa hér: Endurskilgreining lífsins eftir áfallið
Athugasemdir