Ekki er hefð fyrir því að refsa kennurum og akademískum starfsmönnum við Háskóla Íslands fyrir ritstuld, en samkvæmt reglum skólans er nemendum hins vegar „algerlega óheimilt að nýta sér hugverk annarra í ritgerðum og verkefnum, nema heimilda sé getið í samræmi við viðurkennd fræðileg vinnubrögð“. Þá hefur hugvísindasvið háskólans sett sér sérstakar reglur um viðurlög við heimildamisnotkun. Engar sambærilegar reglur eru til um störf kennara og akademískra starfsmanna og eftir því sem Stundin kemst næst hefur starfsmanni við skólann aldrei verið refsað fyrir ritstuld.
Starfsreglur ekki settar
Þann 13. mars árið 2008 dæmdi Hæstiréttur Íslands Hannes Hólmstein Gissurarson, stjórnmálafræðiprófessor við háskólann, fyrir brot gegn höfundarrétti á verkum Halldórs Kiljans Laxness. Ritstuldurinn fólst í því að Hannes nýtti sér texta skáldsins lítt breyttan án þess að geta heimilda. Hannes fékk að starfa áfram við háskólann og fékk ekki áminningu, enda taldi Kristín Ingólfsdóttir rektor að háskólinn hefði „ekki lagalegt svigrúm til að veita áminningu með tilsvarandi réttaráhrifum“. Ákvörðun hennar var mjög umdeild, bæði innan og utan skólans, enda veitir 21. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins forstöðumönnum stofnana talsvert svigrúm til mats á því hvort starfsmenn verðskuldi áminningu.
Fram kom í opnu bréfi sem rektor sendi Hannesi að sett hefði verið af stað vinna innan skólans um setningu starfsreglna til að fyrirbyggja að mál af þessu tagi kæmi upp aftur. Enn hafa engar slíkar starfsreglur litið dagsins ljós. „Mér skilst að þegar málið var skoðað hafi niðurstaðan verið sú að Háskólinn gæti ekki sett eigin reglur um viðurlög sem ganga lengra en landslög,“ segir Jón Atli Benediktsson, aðstoðarrektor og rektorsframbjóðandi í tölvupósti til Stundarinnar, en bendir jafnframt á að starfsmannamál heyra undir forseta fræðasviða og rektor.
Athugasemdir