Staða aðstoðarsaksóknara lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu hefur enn ekki verið auglýst laus til umsóknar þrátt fyrir að lögreglan hafi gefið Stundinni þær upplýsingar í ágúst að það yrði gert síðar í mánuðinum.
Í apríl á þessu ári var Hulda Elsa Björgvinsdóttir, saksóknari sem starfað hefur hjá ríkissaksóknara við góðan orðstír um árabil, sett í stöðu aðstoðarsaksóknara hjá lögreglunni án auglýsingar.
Samkvæmt heimildum blaðsins var þetta gert að frumkvæði Sigríðar Bjarkar Guðjónsdóttur lögreglustjóra án þess að aðstoðarlögreglustjóri og saksóknari lögreglu væri hafður með í ráðum og þrátt fyrir að leitað hefði verið eftir áliti hjá starfsmannaskrifstofu fjármálaráðuneytisins og þau svör fengist að réttast væri að auglýsa stöðuna áður en skipað yrði í hana.
Stundin sendi lögreglunni fyrirspurn um málið þann 9. ágúst og fékk þau svör að sett hefði verið í stöðuna um miðjan apríl en staðan yrði auglýst laus til umsóknar síðar í mánuðinum.
Aðspurður á föstudag hvort búið væri að auglýsa stöðuna svaraði upplýsingafulltrúi lögreglunnar: „Nei, það er ekki búið að auglýsa stöðuna og ég hef ekki upplýsingar um af hverju það hefur dregist.“
Ítrekaðar stöðuveitingar án auglýsingar hafa valdið titringi innan lögreglunnar. Í fyrra sendi Landssamband lögreglumanna umboðsmanni Alþingis bréf þar sem óskað var eftir því að hann hæfi frumkvæðisathugun á stöðuveitingum hjá embættinu. Fram kom að sambandinu hefðu borist síendurteknar umkvartanir frá félagsmönnum vegna stöðuveitinga án auglýsinga.
Athugasemdir