Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra Íslands, neitar að taka þátt í sérstakri umræðu um verðtrygginguna á Alþingi. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, hefur ítrekað farið fram á að slík umræða eigi sér stað, en Sigmundur er mótfallinn því.
Stjórnarandstaðan lagði fram tillögu að dagskrárbreytingu á Alþingi í morgun í því skyni að koma umræðunni að, en tillagan var felld. Hins vegar mætti forsætisráðherra í viðtal við útvarpsmennina Heimi Karlsson og Gunnlaug Helgason í Bítinu á Bylgjunni morgun og spjallaði meðal annars við þá um verðtrygginguna.
„Ég vil ræða verðtrygginguna
við hvern sem er“
„Ég vil ræða verðtrygginguna við hvern sem er,“ sagði hann í viðtalinu og bætti því við að hann vildi gjarnan svara munnlegum og skriflegum fyrirspurnum um málið. „En þarna er hún að biðja um að þetta mál verði tekið upp í sérstökum lið sem kallast sérstakar umræður og sá liður er til þess ætlaður að sá ráðherra sem er að vinna í ákveðnu máli eða fer með ákveðið mál geti komið og greint þinginu frá stöðu málsins. Þess vegna er það ráðherra sem fer með viðkomandi mál sem gerir það.“
Kosningamál Sigmundar
Afnám verðtryggingarinnar var eitt helsta kosningamál Framsóknarflokksins í síðustu þingkosningum. Forsætisráðherra skipaði sjálfur sérfræðingahóp um afnám verðtryggingar á nýjum neytendalánumþann 16. ágúst 2013 og skilaði hópurinn skýrslu í fyrra sem lögð hefur verið til grundvallar vinnunni.
Fjallað er um sérstakar umræður í 60. gr. þingskaparlaga, en samkvæmt henni getur forseti Alþingis „sett á dagskrá þingfundar sérstaka umræðu þar sem þingmenn geta fengið tekið fyrir mál hvort heldur er í formi yfirlýsingar eða fyrirspurnar til ráðherra. Þingmaður skal afhenda forseta skriflega beiðni hér um. Við slíka umræðu skal ráðherra vera til andsvara.“
Sigmundur benti á það í umræðunum á Bylgjunni að á síðasta kjörtímabili hefði hann sjálfur eflaust reynt að „fá forsætisráðherra til að tala um mál annarra ráðherra”, en þegar ekki hefði verið brugðist við því hafi hann látið gott heita.
Athugasemdir