Ein af birtingarmyndum þess að þjóðfélagið allt er á blússandi uppleið er að fólk er hætt að deila með sér ráðum í anda hagsýnna húsmæðra. Þegar kreppan náði hámarki eftir bankahrun kepptust fjölmiðlar við að birta ráð um ódýra og hefðbundna eldamennsku. Nú les enginn slíkt, heldur reiðir fólk fram framandi rétti í eldhúsinu heima, ef það hefur á annað borð tíma til að elda sjálft. Annars fer það bara út að borða. Hefðbundin matargerð er ekki í tísku og það er kjötneysla ekki heldur. En þrátt fyrir allt er sláturtíðin byrjuð, svo ef þú vilt synda á móti straumnum, vera öðruvísi en allir hinir, er þetta einmitt tíminn fyrir þig til að læra að taka slátur.
-
Það fyrsta sem þú gerir er að fara út í kjörbúð og kaupa hráefni í tvö slátur, sem gefa þér tíu keppi. Þú færð í einum pakka frosið blóð í fötu, heilan poka af hvítri fitu sem kallast mör, sjálfa vömbina úr lambinu litla til að sníða poka úr, nýru þess, hjarta og sviðinn hausinn. Kauptu líka rúgmjöl og hafra og nokkuð sem heitir sláturgarn. Kannski líka ilmkerti.
Athugasemdir