Starfsmenn ferðaþjónustufyrirtækisins Borea Adventures ætluðu varla að trúa sínum eigin augum þegar þau komu að landi í Hornvík um hádegisbilið á laugardaginn. Þar sátu fimm menn sem lögt höfðu undir sig hafnarsvæðið til þess að stunda „veiðiþjófnað, dýraníð, fyllerí og vanhelgun á eigum annarra“ eins og einn starfsmaðurinn orðaði það.
„Mennirnir voru búnir að kveikja eld í fjörunni og voru að brenna rusl. Þá voru þeir búnir að taka tvær gryfjur á svæðinu en önnur þeirra var fyrir grill mannanna sem stóð uppi á grónu landi.“
Þeir voru illa á sig komnir vegna drykkju þegar að þeim var komið og sátu fyrir utan slysavarnaskýlið í Hornvík en fyrir utan skýlið var selur sem mennirnir höfðu skotið með haglabyssu eða riffli og fláð að hluta. Við hlið hans var hreyfiskynjari tengdur inn í skýlið og vældi hann við minnstu hreyfingu við selinn. Slíka skynjara nota refaskyttur en slík veiði er stranglega bönnuð á svæðinu.
Athugasemdir