Í Borgartúni 1 er rekin Kaffistofa Samhjálpar. Þar bjóða sjálfboðaliðar velkomna alla sem þangað leita. Gestum er boðið upp á morgunkaffi, meðlæti og heita máltíð í hádeginu, alla daga ársins. En ástandið á Kaffistofunni hefur breyst mikið síðustu tvo mánuði. Eru slagsmál nú daglegt brauð, og varð gestur fyrir hnífaárás um daginn, þar sem reynt var að skera hann á háls.
24. ágúst síðastliðinn lokaði Hjálpræðisherinn Dagsetrinu á Eyjaslóð. Þangað höfðu leitað, á hverjum einasta degi, tugir heimilislausra, sem sóttu þangað skjól, mat, og ýmsa aðra grunnþjónustu. Eftir að Dagsetrinu var lokað fóru þeir sem þangað höfðu sótt að leita í auknu mæli á Kaffistofu Samhjálpar í Borgartúninu.
Álagið fimmfaldast
Róbert Gunnarsson, matreiðslumaður, og Ásólfur Bjartmar Gunnarsson, sjálfboðaliði, segja að álag á alla starfsmenn hafi aukist gríðarlega eftir lokun Dagsetursins. „Í staðinn fyrir að þetta sé bara venjuleg kaffistofa, þá er að koma fólk hingað, sem venjulega var uppi í Dagsetri. Meðal annars til þess að sprauta sig inná klósetti. Og við þurfum að fást við allt sem fylgir þessari neyslu. Þau eru svo bara hérna allan daginn. Það fylgja þessu slagsmál, neysla, allur pakkinn. Þetta gerir það að verkum að venjulegt fólk, sem virkilega þarf á þessari aðstoð að halda, það þorir ekkert hingað inn. Það bara snýr fer í burtu. Álagið hefur ekki bara tvöfaldast, það hefur fimmfaldast, á alla starfsmenn,“ segir Róbert.
Athugasemdir