„Mér finnst íslenskt samfélag hálf fordómalaust,“ segir Sindri Sindrason, fréttaþulur Stöðvar 2. Hann segist upplifa að tabú séu ekki lengur til staðar í íslensku samfélagi, hann hafi ekki upplifað fordóma þrátt fyrir að vera hluti af minnihlutahópum, sem hann taldi upp í viðtali við Töru Margréti Vilhjálmsdóttur, formann Samtaka um líkamsvirðingu, á mánudaginn.
Tara skrifar í pistli að hún upplifi að Sindri hafi brotið á sér í viðtali fréttartíma Stöðvar 2 og segist horfa allt öðruvísi á fjölmiðla í kjölfarið.
Fordómar innra með okkur
Aðdragandinn er að Sindri, sem er fréttaþulur á Stöð 2, lét umdeild orð falla í viðtali við Töru Margréti. Hann spurði hvort fordómar væru „within“ eða inni í okkur sjálfum. Tara Margrét svaraði að þetta væri í rauninni talað úr munni einhvers sem hefði forréttindastöðu og að hann þyrfti að hafa upplifað fordómana í raun og veru til að skilja þetta. Sindri brást hvass við. „Veistu hvað ég er í mörgum minnihlutahópum? Ég er hommi, ég á litað barn, það er ættleitt, ég er fyrsti samkynhneigði maðurinn til að ættleiða á Ísland, ég er giftur útlendingi, eða hálfum útlendingi, þannig að við skulum ekki fara þangað.“
Maður Sindra er hálfdanskur og barn hans hálfíslenskt og hálfmakedónskt.
Sindri: „Mér finnst allir vera í eins konar jaðarhóp“
Aðspurður hvort Sindri og fjölskylda hans hafi fundið fyrir fordómum í samfélaginu svarar Sindri neitandi. „Við erum náttúrlega í jaðarhópi. Mér finnst allir vera í eins konar jaðarhópi, mér finnst allir vera pínulítið öðruvísi. Maður upplifir allt svolítið í gegnum börnin sín þar eru bara alls konar fjölskylduform og það kippir sér aldrei neinn upp við það þó að einhver sé pínu öðruvísi en hann sjálfur. Mér finnst íslenskt samfélag hálf fordómalaust. Mér finnst allir vera frekar jákvæðir og opnir gagnvart náunganum. Þó að það sé að sjálfsögðu undantekningarnar sem sanna regluna. Kannski er ég bara svona blindur á fordómana. Við erum alltaf að leggja áherslu á að virðingin, sjálfsvirðingin komi að innan, við tölum við börnin okkar að það skipti ekki máli hvað öðrum finnst ef okkur líður vel. Ég barðist með það að koma út úr skápnum í sjö ár því ég var svo hræddur um hvað fólk myndi segja því ég var ekkert sáttur með þetta á tímabili. Svo kom ég út og öllum var svo slétt sama. Þess vegna hef ég þessa tilfinningu að þetta sé bara ég. Þegar ég er í ættleiðingaferlinu og í fyrsta skipti sem ég fer með hana á leikskóla þá er maður svona hvað finnst fólki, þegar hún kallar á eftir okkur báðum pabbi og hleypur kannski til okkar beggja í Bónus. Fyrst pældi ég mikið í því en fólk kippir sér ekkert upp við það,“ segir Sindri.
Stendur með svari sínu
Tara segist ekki sjá eftir svari sínu. „Ég mun standa með þessu svari mínu fram í rauðan dauðann. Fyrir utan það að ég upplifði að brotið hefði verið á mér í beinni þegar hann kom mér algjörlega í opna skjöldu með þessar viðbótarspurningar sínar var ég í fullum rétti til að álykta að þetta kæmi beint frá honum sem persónu en ekki sem hlutlausum fréttaþuli,“ skrifar Tara Margrét. Hún gagnrýnir Sindra harðlega fyrir að hafa blandað eigin persónu í viðtalið.
Í samtali við Stundina svarar Sindri ásökunum og segir: „Ég vil koma því að, mér finnst mjög leiðinlegt ef henni hafi fundist ég ráðast á sig en ef maður horfir á viðtalið þá er það náttúrlega ekki þannig,“ og bætir við: „Þetta er svo mikill stormur í vatnsglasi. En hún er náttúrlega formaður hagsmunahóps og á að geta svarað þeim spurningum sem koma fram.“
Tara upplifir að brotið hafi verið á henni í beinni
Tara skrifar að Sindri hafi dregið sig sjálfur inn í umræðuna með orðalaginu „svo velti ég öðru fyrir mér og örugglega margir aðrir“. Hún segir mikilvægt að fjölmiðlamenn blandi sér ekki persónulega inn í málin þar sem þeir séu á heimavelli og í valdastöðu gagnvart viðmælanda og upplifir að brotið hafi verið á sér. „Ég horfi allt öðruvísi á fjölmiðla eftir það sem kom í kjölfarið. Ég er svo skaðbrennd af þessari reynslu að ef að brunasárin væru líkamleg lægi ég á gjörgæslu.“
„Ég er svo skaðbrennd af þessari reynslu að ef að brunasárin væru líkamleg lægi ég á gjörgæslu.“
Í samtali við Stundina segir Sindri. „Ég hef verið í fjölmiðlum í 13 ár og held ég hafi aldrei dregið mig svona áður inn. Ég segi samt við hana: ertu að meina mig og hún sagði „já“, hún var ekki að tala almennt heldur benti á mig. Annars hefði ég ekki gert það en ég held að viðbrögðin hafi verið miklu meiri en tilefni var til. Ég er ekki að gera lítið úr því að hún finni fyrir fordómum og að það hljómi þannig. Mér finnst líka leiðinleg sú gagnrýni sem hún hefur fengið á sig á kommentakerfunum því ég veit alveg að hún er að vinna gott starf.“
Jaðarsetning innan samfélagslegs kerfis
Í pistlinum skrifar Tara að mikil vitundavakning hafi orðið meðal jaðarhópa á ráðstefnunni Truflandi. „Á ráðstefnunni sameinuðumst við, við valdefldumst og lærðum mikið. Við horfðumst í augu við eigin jaðarsetningu og forréttindi sem við öll höfum fram yfir hvort annað. Það sem Lydia, aðalfyrirlesari ráðstefnunnar kenndi okkur var einmitt að horfast í augu við það að jaðarsetningin sem við verðum fyrir er ekki rakin til einhvers innra með okkur eða einhvers sem sést utan á okkur. Jaðarsetningin er tilkomin vegna þess samfélagslega kerfis sem hefur skapast, þar sem einn hópur er talinn meira virði en einhver annar. Það er samfélagslega viðurkenndara að vera ófatlaður en fatlaður, hvítur en svartur, gagnkynhneigður en hinsegin og grannur en feitur. Þannig verður til flókið mynstur forréttinda og jaðarsetningar sem við höfum hvert og eitt.“
„Tabúin ekki lengur til staðar“
Í viðtalinu svaraði Sindri Töru því að hann væri í mörgum minnihlutahópum þar sem hann væri giftur útlenskum manni og ættu þeir litað ættleitt barn. „Maðurinn minn er reyndar hálfdanskur. Barnið okkar er hálf-makedónskt og hálf-íslenskt. Ég hef ekki fundið fyrir fordómum, ég vinn í fjölmiðlum, ég kynnist fullt af fólki,og mín upplifun er sú að tabúin séu ekki lengur til staðar vegna þess að við erum svo opin fyrir því að tala um hlutina. Maðurinn minn er verkfræðingur sem er mjög karllægur geiri og hann hefur heldur ekki fundið fyrir fordómum.“
Tara segist vona að umræðan fái fólk til að líta í eigin barm og skoða hvernig forréttindi birtist í daglegu lífi. „Eftir viðtalið og eftir því sem ég hef verið að púsla allri þessari reynslu saman hef ég komist að ákveðinni niðurstöðu. Hún er að samfélagið vill að við sem erum einhvern öðruvísi og tilheyrum jaðarsettum hópum tökum ábyrgðina á því á okkur sjálf, ef ekki að öllu leyti að þá allavega að hluta til. Það er svo sterkt kveðin vísa að veik staða okkur sé okkur sjálfum að kenna að við höfum langflest innrætt það með okkur. Þess vegna er hann [Sindri] vanur að fá þetta svar. Þegar ég neitaði að gefa honum það braut ég þessa samfélagslegu reglu um að ég, sem jaðarsett manneskja skyldi bara halda mig á mottunni, og ekki rugga bátnum. Vegna þess að með því að gera slíkt ógnum við fyrirliggjandi valdakerfi og fyrir þá sem hafa völdin er það eðlilega mjög ógnvekjandi.“
Hér má sjá viðtal Sindra við Töru. Samtalið sem hér er rætt um byrjar á 6:45
Athugasemdir