Vegna greinar sem birtist á vefsíðunni vald.org, þar sem tengsl Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra og formanns Sjálfstæðisflokksins við félagið „Elkem Silicor Materials“ voru til umfjöllunar, sendi Davíð Stefánsson, verkefnisstjóri Silicor Materials á Íslandi, neðangreinda áréttingu á Stundina.
Síðastliðinn föstudag greindi Stundin frá því að hluti þeirra ásakana sem birtust á vefsíðunni vald.org voru réttar. Þar má helst nefna þá stafhæfingu að Bjarni sé enn umboðsaðili Elkem á Íslandi samkvæmt fyrirtækjaskrá. Að sögn Teits Björns Einarssonar, aðstoðarmanns Bjarna, var ástæðan sú að skráningu hafi ekki verið breytt frá árinu 2003 þegar Bjarni tók að sér að sér sem lögfræðingur að stofna bankareikning fyrir Elkem á Íslandi. Raunar benti Teitur á það sama þá og Davíð nú, Elkem og Silicor Materials eru tvö mismunandi fyrirtæki.
Yfirlýsing Silicor Materials á Íslandi í heild sinni:
„Hér er verið að rugla saman tveimur alls óskyldum fyrirtækjum. Annað er járnblendiverksmiðja Elkem á Grundartanga og hitt er fyrirtækið Silicor Materials sem er að undirbúa byggingu sólarkísilverksmiðju á Grundartanga. Staðsetningin á Grundartanga er það eina sem þessi fyrirtæki eiga sameiginlegt. Alls engin stjórnunartengsl eða eignartengsl eru á milli félaganna. Enn síður eru nokkur tengsl á milli Silicor Materials og Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra. Mér vitanlega hafa fulltrúar Silicor Materials aldrei átt fund með Bjarna Benediktssyni, hvað þá að hann hafi verið eða sé lögmaður félagsins.“
Athugasemdir