Ögmundur Jónasson, fráfarandi þingmaður Vinstri grænna og formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis, telur að Mjólkursamsalan sé höfð í sigtinu og jafnvel lögð í einelti.
Þetta kemur fram í pistli eftir hann sem birtist í Fréttablaðinu í dag. Fyrr í mánuðinum sektaði Samkeppniseftirlitið Mjólkursamsöluna um 480 milljónir króna vegna alvarlegra brota á samkeppnislögum og misnotkunar á markaðsráðandi stöðu sinni.
Ögmundur segir Samkeppniseftirlitið hafa, allt frá því stofnunin varð til, haft Bændasamtök Íslands í sigtinu. „Frægt varð þegar samtökin voru sektuð fyrir að leyfa umræðu um afkomu bænda og verðlagsmál á þingi sínu. Slíkt flokkaðist að mati eftirlitsins undir verðsamráð sem á að vera alveg bannað þegar bændur eiga í hlut,“ skrifar hann og bætir því við að minna hafi farið fyrir gagnrýni samkeppnisyfirvalda á þann hluta verðmyndunar landbúnaðarafurða sem á sér stað þegar komið er inn fyrir dyr stóru verslanakeðjanna. „Í seinni tíð hefur Mjólkursamsalan, MS, tekið við hlutverki hins illa og er nú nánast í einelti að því ég fæ best séð.“
Ögmundur bendir á að um 660 kúabændur séu á Íslandi og Mjólkursamsalan sé sameiginlegt framtak þeirra til að annast milligöngu og vinna afurðir á eins hagkvæman og ódýran máta og mögulegt er fyrir sjálfa sig og neytendur. „Að neytendahliðinni hafa fulltrúar launafólks komið, í gegnum verðlagsnefndir til að ákveða verð á þessum afurðum. Með öðrum orðum, þetta eru lausnir sem byggja á samlegð og samvinnu. Þessi úrræði samvinnu- og jafnaðarsamfélagsins er mörgum þyrnir í auga, sennilega fyrst og fremst af pólitískum ástæðum,“ skrifar hann.
Athugasemdir