Fyrirhugað frumvarp um misnotkun stera mun ekki fjalla „að neinu leyti“ um þá sem nota stera. Þetta er haft eftir Óttari Proppé heilbrigðisráðherra á Vísi.is.
Eins og Stundin greindi frá fyrr í vikunni hyggst ráðherrann leggja fram „frumvarp til laga um misnotkun vefjaaukandi efna og stera“. Þetta kemur skýrt fram í þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar og er þar fullyrt að nauðsynlegt sé að leggja fram frumvarp sem spornar við slíkri misnotkun. Þá kemur fram að höfð verði hliðsjón af sambærilegri danskri löggjöf en þar í landi er tekið hart á steranotkun einstaklinga.
Á Vísi.is er haft eftir óttari að sterafrumvarpið sé í vinnslu í ráðuneytinu. „Það fjallar ekki að neinu leyti um þá sem neyta umræddra efna. Tilgangur þess er að sporna við dreifingu og sölu þessara efna og sömuleiðis ólöglegri framleiðslu og innflutningi þeirra. Samráð verður haft við breiðan hóp hagsmunaaðila við smíði frumvarpsins og er stefnt að því að birta drög að frumvarpinu á vef ráðuneytisins til umsagnar áður en það verður lagt fram á Alþingi.“ Þá kemur fram að tollstjóri og lögreglan hafi óskað eftir því að lögfestar verði reglur á þessu sviði.
Athugasemdir