„Stjórnarflokkarnir hlakka til að halda til fundar við kjósendur,“ sagði Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, í umræðum um fundarstjórn forseta á Alþingi í dag.
Þingmenn stjórnarandstöðunnar sóttu hart að ráðherranum og kröfðust afsagnar hans. „Skattamálaráðherra situr enn og er sjálfur í Panama-skjölunum. Þetta er óásættanlegt,“ sagði Svandís Svavarsdóttir, þingkona Vinstri grænna. „Hvar á byggðu bóli í veröldinni gæti fjármálaráðherra, æðsti yfirmaður skatta- og ríkisfjármála í landinu, setið á ráðherrastóli eftir aðra eins afhjúpun og nú hefur verið gert á þátttöku hans og aðild að aflandsfélagi í skattaskjóli?“ sagði Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, þingkona Samfylkingarinnar.
Róbert Marshall, þingmaður Bjartrar framtíðar, tók í sama streng og sagði ríkisstjórninni ekki hafa tekist að rökstyðja hvers vegna eðlilegt væri að hún sæti áfram. „Hún hefur viðurkennt það að hún er að hrökklast frá völdum. Við erum stödd í miðju bílslysi sem sýnt er hægt,“ sagði hann. „Trúverðugleikinn er enginn, traustið er farið og það er ekkert sem réttlætir það að hún sitji áfram.“
Þá fullyrti Róbert að ríkisstjórn væri að reyna að kaupa sér tíma. „Planið var nefnilega að kaupa tíma. Að fresta og fá tíma til þess að grípa til aðgerða sem mögulega myndu hífa upp fylgið. Það sem við okkur blasir er afrekaskrá ríkisstjórnar sem ætlaði að halda öllu að sér í þrjú ár og koma svo með feit kosningafjárlög á fjórða árinu. Það er það sem við okkur blasir. Við erum að fjalla um samgönguáætlun núna og tala við sveitarstjórnarfólk og það er í sjokki. Það er í uppnámi vegna ástandsins í samgöngum þjóðarinnar. Þjóðin öll er í uppnámi yfir ástandinu í heilbrigðiskerfinu, það sama er að segja um menntakerfið, en það átti að gefa í fjórða árið og kaupa sér með fjármunum almennings vinsældir. Og það sem nú er að gerast er að Sjálfstæðisflokkurinn er að kaupa sér tíma til að hífa upp fylgi Framsóknarflokksins. Því það ætlar enginn annar með þeim í stjórn, hverjum myndi detta það í hug þegar afrekaskráin er eins og hún er? Þegar framtíðarsýnin er eins og hún er? Þegar virðingin fyrir umræðunni og almenningi í þessu landi er eins og raun ber vitni. Hún er fyrir neðan allar hellur.“
Bjarni Benediktsson greip fram í fyrir Róberti og spurði hvort þetta væri hin nýja umræðuhefð Bjartrar framtíðar. Þá gagnrýndi hann þingmenn stjórnarandstöðunnar fyrir að tala um traust sín til undir liðnum fundarstjórn forseta. „Ef að einstaka þingmenn vilja koma með vantrauststillögu á ráðherra þá skulu þeir bara gera það,“ sagði hann. „Og talandi um traust, mættu ekki sumir þeirra sem stigu hér upp líta kannski aðeins í eigin barm og spyrja sig, hvernig er traustið til viðkomandi stjórnmálaflokka? Staðreyndin er sú, að stjórnarflokkarnir þeir hlakka til fundar við kjósendur, til að leggja fyrir kjósendum í þessu landi þann gríðarlega árangur sem áherslur ríkisstjórnarinnar hafa skilað fyrir landsmenn.“
Athugasemdir