„Ég held að flestir fagni því nú bara að sitjandi formaður fái mótframboð. Ef Árni Páll vinnur þá stendur hann uppi sem sterkari formaður en áður, en ef ekki þá er það bara til marks um að fólk vilji breytingar,“ segir einn af viðmælendum Stundarinnar um formannskjör Samfylkingarinnar sem fram fer á eftir. Stundin hefur rætt við Samfylkingarfólk um stöðu mála og andrúmsloftið á landsfundinum.
Mjög hefur verið þrýst á forystubreytingar undanfarnar vikur og mánuði og þá helst litið til Katrínar Júlíusdóttur og Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur.
Þegar Sigríður tilkynnti um framboð sitt í gærkvöldi kom það flokksmönnum í opna skjöldu, meðal annars Árna Páli, eins og hann sagði sjálfur í sjónvarpsfréttum RÚV, og stuðningsmönnum hans.
Á Eyjunni og í Kjarnanum í dag er gefið í skyn að lengi hafi staðið yfir skipulagning hallarbyltingar innan Samfylkingarinnar. Vefpressan gengur svo langt að tala um „herráð Sigríðar Ingibjargar“ og nefnir meðal annars Kjartan Valgarðsson, fyrrverandi formann Reykjavíkurfélags Samfylkingarinnar og formann fulltrúaráðs, í þessu samhengi. Kemur nafn hans einnig fyrir í umfjöllun Kjarnans.
Stundin sló á þráðinn til Kjartans og spurði hvort fótur væri fyrir þessum kenningum. „Ég er mjög upp með mér eftir að hafa lesið þetta, en hlutur minn er þó stórlega ýktur,“ segir hann og bætir við: „Þegar ég talaði við Siggu í gær þá var hún ekki búin að ákveða sig.“ Kjartan segist þá hafa hvatt Sigríði til að bjóða sig fram.
Aðrir stuðningsmenn og félagar Sigríðar Ingibjargar, sem Stundin hefur rætt við, þræta einnig fyrir að hafa vitað af framboði hennar fyrirfram. „Ég spurði hana fyrir nokkrum vikum hvort hún gæti hugsað sér í framboð og þá var hún á báðum áttum,“ segir einn viðmælandi.
Annar bendir á að margir hafi lengi viljað sjá breytingar, það sé ekkert launungarmál, en að það hafi algjörlega farið fram hjá sér ef stórkostlegt plott hafi verið skipulagt með löngum fyrirvara til að steypa Árna Páli af stóli. „Ég skil ekki hvernig það getur verið einhver aðför úr launsátri að umdeildur formaður fái mótframboð,“ segir landsfundarfulltrúinn í samtali við blaðamann.
Samkvæmt heimildum Stundarinnar ætla margir í Ungum jafnaðarmönnum, sem áður studdu Árna Pál til forystu í Samfylkingunni, að kjósa Sigríði Ingibjörgu. Hefur Stundin heimildir fyrir því að margir ungliðar hafi íhugað að skila auðu ef Árni Páll yrði einn í framboði.
„Árni Páll er með sterkt bakland í flokknum, en ég held að margir óttist að flokkurinn muni ekki ná flugi með hann í forystu. Það er dálítil áhætta fólgin í því að kjósa Sigríði, en ég held að það sé áhætta sem margir eru tilbúnir að taka,” segir einn viðmælandinn.
Annar telur að Árni Páll hafi staðið sig vel á erfiðum tímum, en það taki tíma að byggja upp trúverðugleika flokksins. Ekki megi gera óraunsæjar kröfur til formanns í þeim efnum.
Athugasemdir