Íbúum á Tálknafirði er mjög brugðið vegna áforma eigenda Þórsbergs um að selja skip og kvóta fyrirtækisins suður í Garð. Samkvæmt heimildum Stundarinnar er hluti af kaupunum fólginn í því að Tálknfirðingar fá smábátakvóta. Samkomulagið er talið vera í höfn. Bergþór Baldvinsson, framkvæmdastjóri Nesfisks, vísaði aðspurður um málið á Guðjón Indriðason, aðaleiganda Þórsbergs.
Stundin greindi frá málinu í gær. Íbúar og fyrrverandi starfsmenn Þórsbergs fá ekkert að vita fremur en Verkalýðsfélag Vestfirðinga sem ítrekað hefur leitað eftir svörum frá eigendum Þórsbergs um áform þeirra. „Við kröfðum þá enn einu svara í síðustu viku en fengum ekkert upp úr þeim þrátt fyrir samning eftir uppsagnirnar um þeim beri að halda okkur upplýstum. Ég hef ekkert fengið upp úr þeim,“ segir íbúi á staðnum, sem vill ekki láta nafns síns getið af ótta við að afkomu hans verði enn frekar ógnað.
Íbúinn ræðir um þá stöðu sem eru uppi þegar verið er að selja 1.200 tonna kvóta Þórsbergs í burtu af staðnum. Byggðastofnun á rúmlega 20 prósenta hlut í félaginu og þar með íslenska ríkið.
„Maður fær ekki að vita neitt hérna. Þeim er alveg sama þótt byggðarlaginu blæði,“ segir hann.
Eftir standa tóm fiskvinnsluhús í 300 manna þorpi þar sem lífsbjörgin er að mestu horfin. Starfsmenn Þórsbergs hafa fram að þessu lagt sveitarfélaginu til um 66 prósent af útsvarstekjunum. Í byrjun september var öllu starfsfólki Þórsbergs á sjó og landi sagt upp. Á starfsmannafundi var fólki sagt að það væri vegna fyrirhugaðrarar sölu fyrirtækisins. Ástæðan var að sögn langvarandi rekstrartap félagsins. Um það leyti voru viðræður í gangi við Odda á Patreksfirði um að taka yfir reksturinn. Upp úr þeim viðræðum slitnaði nýverið og Nesfiskur í Garði kom inn í myndina.
Athugasemdir