Íbúðalánasjóður virðist ekki hafa haft neina heimild til þess að sjá sjálfur um sölu á 642 íbúðum til hinna ýmsu fjárfestingarfélaga í tveimur gríðarstórum söluferlum sem fóru fram í mars í fyrra og í maí á þessu ári. Um er að ræða fasteignaviðskipti upp á rúmlega ellefu milljarða sem enginn sjálfstæður eða óháður fasteignasali kom að. Aðdragandi og framkvæmd söluferlisins er mjög umdeild meðal fasteignasala sem telja Íbúðalánasjóð ekki hafa haft heimild í lögum til þess að selja eignasöfnin. Þeir fasteignasalar sem Stundin ræddi við voru allir til í að segja sína skoðun á málinu en enginn vildi stíga fram og gagnrýna sjóðinn opinberlega. En af hverju vildi enginn stíga fram og gagnrýna ferlið og benda á vankanta framkvæmdarinnar undir nafni? Þeir sögðust ekki þora því af ótta við að fá ekki úthlutaðar fasteignir til sölu frá sjóðnum.
Frá 1. janúar 2008 og til dagsins í dag hefur Íbúðalánasjóður selt rúmlega 3.500 íbúðir en um er að ræða fasteignir sem sjóðurinn eignaðist með nauðungaruppboðum. Af þessum rúmlega 3.500 íbúðum vill Íbúðalánasjóður meina að flestar hafi verið seldar til einstaklinga í gegnum samstarf við fasteignasala um allt land. Verðmæti þessara fasteignaviðskipta hlaupa á rúmum fimmtíu og fimm milljörðum króna. Umfangsmestu fasteignaviðskipti sjóðsins voru þó ekki við einstaklinga heldur hin ýmsu fjárfestingarfélög sem hafa keypt upp hundruð íbúða á landinu öllu. Með þessum gjörningum hefur ótrúlegt magn fasteigna færst á hendur örfárra fyrirtækja sem stjórna leiguverði á stórum svæðum og í raun á öllu landinu. Líkt og Stundin greindi frá um miðjan ágúst voru kaupendurnir í öllum tilvikum fjárfestingarfélög.
Vafasöm fasteignaviðskipti upp á 11 milljarða
Þannig keyptu sex fjárfestingarfélög samtals 642 íbúðir á rúma ellefu milljarða króna í tveimur söluferlum. En það sem var ólíkt með þessum söluferlum og öðrum sem Íbúðalánasjóður hefur staðið í frá hruni er að enginn löggildur, óháður og sjálfstæður fasteignasali kom að viðskiptunum. Ef litið er á lög um sölu á fasteignum og skipum kemur skýrt fram í annarri grein að: „Þeim einum er heimilt að hafa milligöngu fyrir aðra um kaup, sölu eða skipti á fasteignum eða skráningarskyldum skipum sem hafa til þess löggildingu sýslumanns.“
Athugasemdir