„Þetta var eiginlega of gott til að vera satt og það var niðurstaðan á endanum,“ segir Auður Ösp Guðjónsdóttir en hún svaraði auglýsingu á Bland.is þar sem íbúð í Hlíðunum var auglýst til leigu.
Auglýsingin hljómaði virkilega vel , ekki nema 105 þúsund krónur á mánuði fyrir tveggja herbergja íbúð með öllu inniföldu á frábærum stað, miðsvæðis í Reykjavík. Auður Ösp var í vanda stödd þar sem hún er að missa íbúðina sína í Reykjavík núna í júní þannig að hún hafði samband við þann sem auglýsti íbúðina.
„Það var ekki hægt að hafa samband við hann í gegnum Bland.is þannig að ég sendi honum tölvupóst og spurðist fyrir um íbúðina,“ segir Auður Ösp sem starfar sem leikskólakennari í Reykjavík samhliða mastersnámi.
Ekki stóð á svörum því daginn eftir var komið svar frá manni sem kallar sig Christian Thurner. Auður Ösp sendi Christian Thurner tölvupóst á íslensku en svarið frá Christian var á ensku. Þar sagðist Christian vera 58 ára verkfræðingur sem starfaði fyrir alþjóðlega fyrirtækið MWH Global Engineering sem sérhæfir sig í að byggja betri heim, líkt og fram kemur á vefsíðu þeirra. Hann ætti yndislega konu sem heitir Sarah og 25 ára gamla dóttur að nafni Maria.
„Ég get með stolti sagt þér það að ég verð afi innan skamms. Síðan á fjölskyldan 8 ára gamlan labrador sem við öll elskum þannig að okkur er alveg sama þótt þú eigir gæludýr“
Hann sagðist búsettur í Vín í Austurríki og að fjölskyldan hafi fjárfest í íbúð í Lönguhlíð 19 í Reykjavík þegar dóttir hans sótti nám hér á landi. Hún sé hins vegar búin með námið, flutt aftur út og ætlar sér ekki til Íslands aftur. Sjálfur sagðist hann of gamall til þess að fara að flytja til Íslands: „...so we won‘t disturb you“ sem þýðir einfaldlega að Auður Ösp fengi að vera alveg í friði í nýju íbúðinni.
Notar nafn Airbnb í blekkingunum
„Ég var að sjálfsögðu ánægð með þetta en líkt og ég sendi til hans þá fannst mér þetta of gott til að vera satt. Ég bað hann um að vera í sambandi við mig, ég væri spennt fyrir íbúðinni. Þá fékk ég strax aftur svar um að íbúðin væri bara tilbúin fyrir mig og það eina sem ég þyrfti að greiða væri 105 þúsund krónur fyrir fyrsta mánuðinn og síðan 210 þúsund krónur í tryggingu. Þessa upphæð, 315 þúsund, átti ég að millifæra inn á reikning sem hann sagði að kæmi frá Airbnb.com,“ segir Auður Ösp en Airbnb.com er ein vinsælasta gistirýmaútleiga í heiminum.
„Ég vona bara að enginn falli fyrir þessu“
„Þetta þótti mér skrítið en ákvað að gefa honum upp nafnið mitt og heimilisfang til þess að sjá hvað myndi gerast. Þetta átti allt að fara í gegnum Airbnb.com en ég átti samt sjálf að leggja inn á hans persónulega reikning. Hann ætlaði síðan að senda mér lyklana og samning með DHL. Ég hefði þá þrjá daga til að skoða og gæti skilað lyklunum og fengið endurgreitt ef mér litist ekki á þetta. Það var síðan í morgun sem ég fékk tölvupóst sem virtist vera frá Airbnb en við nánari skoðun kom í ljós að hann hafði eflaust búið þetta til sjálfur,“ segir Auður Ösp sem sá í kjölfarið umræðu um þennan Christian Thurner í hópi á Facebook þar sem íbúðir eru auglýstar til leigu.
Hefur reynt að svíkja töluvert fleiri
Þar voru fleiri sem höfðu fengið tölvupóst og innantóm loforð frá Christian Thurner en sem betur fer hafði enginn lagt inn á hann fjármuni. Í samskiptum sínum við hina aðilana þá var hann ýmist á Ítalíu eða bauð til leigu íbúð á Háaleitisbraut. Ein þeirra sem hafði fengið svipaðan tölvupóst ákvað að hafa samband við Airbnb og spyrjast fyrir um það hvort fyrirtækið stæði í slíkum gjörningum sem Christian Thurner lýsti, það er að segja hvort fyrirtækið sæi um afhendingu á lyklum og samningi. Svörin sem konan fékk frá Airbnb var á þann veg að þeir sögðust aldrei vinna með fólki á þennan hátt – allt færi í fram í gegnum vefsíðuna þeirra, þar á meðal öll samskipti og íbúðarauglýsing. Airbnb kæmi ekki nálægt íbúðarauglýsingum á Bland.is.
Auður Ösp segist hafa ákveðið í morgun, eftir að hafa fengið þennan dularfulla póst frá „Airbnb,“ að hafa samband við lögregluna á höfuðborgarsvæðinu og láta hana vita af umræddum Christian og hans gylliboðum.
Enginn Christian Thurner skráður
„Ég vona bara að enginn falli fyrir þessu. Þetta er samt hrikalega leiðinlegt því ég hélt fyrst að ég væri komin með íbúð en ætli ég þurfi ekki að halda áfram að leita núna þannig að ef það er einhver þarna úti með íbúð til leigu þá er ég að leita í Reykjavík.“
Stundin hefur reynt að ná sambandi við Christian Thurner í gegnum tölvupóst en ekki haft erindi sem erfiði. Þá má líka einnig geta þess að enginn Christian Thurner, Sarah eða Maria eru skráð fyrir fasteign í Lönguhlíð 19.
Athugasemdir