Þórólfur Matthíasson, prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands, og Jóhannes Hraunfjörð Karlsson hagfræðingur telja að skattagrið geti gert skattaundanskot og tilfærslu fjár í skattaskjól eftirsóknarverðari en slík háttsemi er nú þegar. Þetta kemur fram í grein sem birtist á Vísindavef Háskóla Íslands á dögunum, en þar svara þeir spurningunni „Hversu gagnleg eru skattagrið til þess að auka skattskil og skatttekjur?“.
Hagfræðingarnir nefna í svari sínu að sá sem felur fé í skattaskjóli geti ekki notað þá fjármuni með sama hætti og þá fjármuni sem geymdir eru á löglega vísu, hérlendis og erlendis. „Þessi staðreynd ætti að hafa letjandi áhrif á þá sem gætu freistast til að skjóta fjármunum undan skatti og geyma í skattaskjóli. Ef skattþegar telja líklegt að skattagrið verði veitt öðru hvoru dregur væntanlega úr þessum latningaráhrifum. Þannig má leiða að því rök að skattagrið geti gert skattundanskot og geymslu fjár í skattaskjólum eftirsóknarverðari en ella,“ skrifa þeir.
Athugasemdir