Ragnheiður Elín Árnadóttir iðnaðarráðherra mætti fyrir atvinnuveganefnd í morgun eftir að hafa í þrígang beðist undan því. Þar skýrði hún afstöðu sín hvað varðar mjög umdeildan fjárfestingarsamning við fiskeldisfélagið Matorku. Fjárfestingarsamningurinn hefur verið gagnrýndur harðlega meðal annars fyrir að skekkja samkeppni í fiskeldi á bleikju. Fulltrúar frá fyrirtækinu Matorku mættu einnig á fundinn. „Ég set ekkert út á fyrirtækið, heldur set ég út á fyrirkomulagið sem við erum að bjóða upp á,“ segir Björt Ólafsdóttir, þingmaður Bjartrar framtíðar í atvinnuveganefnd. „Það sem er athyglisverðast, og ekki í lagi finnst mér, er að ráðherra er að grípa inn í markað sem er blómlegur nú þegar. Markað sem á eru fullt af fyrirtækjum sem hafa þegar þurft að byggja sig upp á markaðslegum forsendum. Þau hafa ekki fengið neinar ívilnanir. Svo kemur eitt fyrirtæki sem fær það allt í einu, út af því að þeim datt í hug að sækja um. Það er eitthvað rangt við það.“
Aðspurð hvort ráðherra hafi útskýrt mál sitt á fundi atvinnuveganefndar í morgun segir Björt hann hafa farið undan í flæmingi. „Ég skil ekki hvernig ráðherra Sjálfstæðisflokksins, ef hann ætlar að aðhyllast stefnu þeirra um frjálst markaðshagkerfi og mátt samkeppninnar, getur staðið fyrir þessu. Ég næ því ekki,“ segir Björt.
Athugasemdir