Gunnar Bragi Sveinsson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra telur ekki heppilegt að Þórólfur Matthíasson háskólaprófessor framkvæmi „staðreyndatékk“ á því sem framsóknarmenn hafa til málanna að leggja.
Þórólfur mun sjá um faglega ritstjórn svara á Vísindavefnum, ásamt Jóni Gunnari Þorsteinssyni, þar sem staðin verður „staðreyndavakt“ vegna Alþingiskosninganna 2016.
Kjarninn kynnti í dag að fjölmiðillinn myndi birta svör Vísindavefsins og einnig halda úti sinni eigin staðreyndavakt.
Landbúnaðarráðherra er ósáttur við val Vísindavefs Háskóla Íslands. Gunnari Braga finnst Staðreyndavaktin frábært framtak. Hins vegar hafi Framsóknarfólk og Þórólfur sjaldan eða einhvern tíma „verið sammála um staðreyndir, í landbúnaði, Icesave eða hvað annað.“ Þetta segir Gunnar Bragi á Facebook-síðu sinni og deilir innslagi úr fréttatíma Stöðvar 2 þar sem Þórólfur tjáði sig um skuldbindingar Íslands í Icesave málinu. Innslagið er frá 6. desember árið 2010 þegar mikil óvissa ríkti um Icesave samkomulagið en Þórólfur spáði því meðal annars að krónan myndi hrynja og lífskjör versna ef Íslendingar myndu neita að borga Icesave.
Athugasemdir