Francis páfi foræmdi í nýlegri ræðu sinni „blóðsugur“ sem auðgast á því að nýta sér neyð annarra. Sagði hann að þeir sem gerðu þræla úr verkafólki og biðu þeim ósanngjörn vinnukjör væru að fremja dauðasynd.
Páfinn, sem tjáir sig reglulega um kjör fátækra og annarra sem minna mega sín, virtist með þessu vera að gagnrýna framkomu við farandverkamenn í vel efnuðum löndum um allan heim, en einnig almenna verkamenn sem starfa á mjög óhagstæðum ráðningasamningum.
Við messu í Vatíkaninu sagði hann sögu af stúlku á Ítalíu sem vann 11 klukkustundir á dag og fékk fyrir það greiddar 650 evrur á mánuði, svart, en það samsvarar um 90 þúsund krónum. „Með þessu er fólk svelt með vinnu sinni til þess að aðrir geti grætt meira. Lifað á blóði fólksins. Og þetta er dauðasynd,“ sagði hann í guðsþjónustu sinni.
„Án lífeyris, án heilbrigðisþjónustu, svo er samningnum rift og stuttu seinna þarf verkafólkið að lifa á loftinu einu saman. Svo hlægja yfirmennirnir af þessu. Þeir sem hegða sér svona eru hinar sönnu blóðsugur.“
Rímar við átak ASÍ: „Ekkert svindl!“
ASÍ kynnti fyrir um mánuði síðan herferðina „Einn Réttur - Ekkert svindl!“ Markmiðið er, samkvæmt vefsíðu átaksins: „Að tryggja kjör og réttindi á íslenskum vinnumarkaði fyrir alla sem hér starfa, þar með talið útlendinga sem hingað koma og ungt fólk sem er að hefja þátttöku á vinnumarkaði.“ Er verkefnið hjá þeim meðal annars hugsað sem andsvar við þau fyrirtæki sem misnota erlent vinnuafl og ungt fólk og skapa sér þannig samkeppnisforskot.
Halldór Grönvold, aðstoðarframkvæmdarstjóri ASÍ, segir að fyrirtæki brjóti sérstaklega á þeim sem veikastir eru fyrir: „Nýjasta uppfinningin í brotastarfsemi er erlent, ungt fólk, sem fengið er hingað til sjálfboðaliðastarfa eða í starfsþjálfun, og er bara notað í undirboði á vinnumarkaði. Við sjáum þetta fyrst og fremst í ferðaþjónustunni og í landbúnaði og í blandaðri starfsemi á landsbyggðinni,“ segir Halldór. Hann segir að algengt sé orðið að ungmenni fái fæði og húsnæði í staðinn fyrir vinnuframlag. Engir ráðningarsamningar séu gerðir og engir launaseðlar gefnir út.
Athugasemdir