Kaupsýslumaðurinn Ólafur Ólafsson hefur komið sér vel fyrir á Kvíabryggju á þeim tæpu tveimur vikum sem hann hefur setið inn vegna Al-Thani málsins að sögn fanga þar sem Stundin ræddi við.
„Þeir eru bara fínir. Þeir eru ekkert bugaðir, þeir eru bara hressir. Allavega þessi Óli, hann er bara hress,“ segir fanginn. Hann segir sömuleiðis að aðrir fangar hafi ekki verið með nein leiðindi við bankamennina.
Fanginn segist þó ekki vita eins mikið um líðan Hreiðars Más Sigurðssonar, fyrrverandi forstjóri Kaupþings, en hann hóf afplánun á Kvíabryggju í dag.
„Ég sá Hreiðar áðan og hann virtist bara vera ágætur og Óli bara hress.“
Hann segir að Ólafur hafi ekki einangrað sig við komuna í fangelsið. „Hann blandar alveg geði. Hann er náttúrulega kannski ekki mikið í kringum liðið, en jú hann er alveg að spjalla.“
Talað hefur verið um mismunun hvað varðar framgöngu Fangelsismálastofnunar í málum bankamannanna sem dæmdir voru fyrir Al-Thani málið. Hvað sem því líður þá virðast þeir ekki vera á neinum sérkjörum í fangelsinu þar sem Ólafur Ólafsson er í minnsta herbergi Kvíabryggjufangelsis. „Hann er bara á ganginum, Óli er í minnsta herberginu. Hann Óli er bara í móttökuherberginu,“ segir fanginn.
Óvíst er hvaða herbergi Hreiðar Már fær úthlutað en ljóst er að hann verður á sama gangi og Ólafur. „Það er ekkert laust í hinu húsinu svo hann verður bara á ganginum,“ segir fanginn.
Heiðar Már fékk fimm og hálfs árs fangelsisdóm á meðan Ólafur Ólafsson fékk fjögurra og hálfs árs dóm.
Athugasemdir