Fjöldi þingmanna, aðallega úr röðum stjórnarflokkanna, hefur lagt fram þingsályktunartillögu um að efnt skuli til þjóðaratkvæðagreiðslu um það hvort flugvöllur skuli áfram vera í Vatnsmýrinni í Reykjavík. Tveir þingmenn Vinstri grænna, þau Ögmundur Jónasson og Lilja Rafney Magnúsdóttir, standa að tillögunni auk Kristjáns L. Möllers, þingmanns Samfylkingarinnar.
Fram kemur í greinargerð að markmið þingsályktunartillögunnar sé að þjóðin fái tækifæri til þess að segja hug sinn um málið og hafa áhrif á það hvar flugvöllurinn og miðstöð innanlands- og sjúkraflugs verða í fyrirsjáanlegri framtíð, m.a. með tilliti til þjóðhagslegra hagsmuna. „Ljóst er að ríkir almannahagsmunir felast í greiðum samgöngum innan lands og að staðsetning flugvallarins og miðstöðvar innanlandsflugs hefur afar mikla þýðingu í því samhengi. Þá er ekki síður ljóst að vegna sjúkra- og neyðarflugs, svo og hlutverks síns sem varaflugvöllur, gegnir flugvöllurinn mjög mikilvægu öryggishlutverki fyrir almenning,“ segir þar.
Þeir þingmenn stjórnarflokkanna sem standa að tillögunni eru Höskuldur Þórhallsson, Elín Hirst, Jón Gunnarsson, Ásmundur Friðriksson, Ásmundur Einar Daðason, Brynjar Níelsson, Elsa Lára Arnardóttir, Geir Jón Þórisson, Haraldur Benediktsson, Haraldur Einarsson, Jóhanna María Sigmundsdóttir, Karl Garðarsson, Líneik Anna Sævarsdóttir, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Silja Dögg Gunnarsdóttir, Valgerður Gunnarsdóttir, Vigdís Hauksdóttir, Vilhjálmur Árnason, Páll Jóhann Pálsson, Willum Þór Þórsson, Þorsteinn Sæmundsson og Þórunn Egilsdóttir.
Athugasemdir