Tólf kennarar við Norðlingaskóla afhentu skólastjórnendum uppsagnarbréf sín uppúr klukkan 14 í dag. Einn þeirra var Ragnar Þór Pétursson, sem jafnframt gegnir stöðu trúnaðarmanns kennara við skólann. Hann segir að kennararnir sem um ræðir séu á ólíkum aldri og kenni á ýmsum skólastigum.
Uppsagnirnar nú koma í kjölfar uppsagna 14 kennara við Seljaskóla á mánudag. Ragnar Þór telur að fleiri eigi eftir að fylgja í kjölfarið. „Þetta hefur legið í loftinu í dálítinn tíma. Menn hafa verið að leita leiða til að þurfa ekki að fara þessa leið, bíða eftir teiknum um að hlutirnir myndu batna, en í raun hafa öll viðbrögð sveitarfélgamegin gefið ástæðu til svartsýni. Nú eru bara stíflurnar að bresta.“
Samningafundi grunnskólakennara og sveitarfélaga hjá ríkissáttasemjara í gær bar ekki árangur en fundað verður aftur á morgun. Tvisvar hafa kennarar hafnað samningum sem hafa verið lagðir fyrir þá.
Athugasemdir