Norsk stjórnvöld standa að byggingu stálgirðingar meðfram landamærunum við Rússland vegna fjölda flóttafólks sem kom til landsins í fyrra.
Nýja girðingin, sem verður rúmlega 200 metra löng og 3,3 metrar á hæð, mun verða í kringum Skorskog landamærastöðina, samkvæmt heimildum Reuters fréttaveitunnar. Áætlað er að byggingu hennar verði lokið áður en vetrarfrostin á svæðinu hefjast.
Dómsmálaráðherra landsins, Ove Vanebo, varði framkvæmdina í samtali við Reuters og sagði hana vera „ábyrgt úrræði,“ þrátt fyrir að um 23.000 manns, að mestu frá Sýrlandi, hafi sótt um hæli í Noregi í fyrra. Fjöldi þeirra sem sækja um hæli í landinu hefur hins vegar fækkað um 95% á fyrsta þriðjungi ársins 2016.
„Ég sé enga þörf fyrir þessa girðingu,“ sagði Rune Rafaelsen, bæjarstjóri Soer-Varanger, sem liggur nálægt landamærunum, í samtali við Reuters. „Það eru allt of margar girðingar að rísa í Evrópu í dag,“ bætti hann við, og benti á dæmi um gaddavírsgirðingar í þjóðum eins og Ungverjalandi.
Linn Landro, sem tilheyri hópnum Refugees Welcome [e. Flóttafólk Velkomið] sagði um framkvæmdina: „Það er skylda okkar að vera land sem fólk getur flúið til. Girðingin sendir mjög neikvæð skilaboð, einnig til Rússlands, af því hún segir: „Við treystum ykkur ekki.““
Flóttafólkið notar reiðhjól til þess að komast yfir landamærin, vegna þess að landamæraeftirlit Rússlands leyfir fólki ekki að fara yfir þau fótgangandi og það er ólöglegt að fara akandi inn í Noreg ef ökumaðurinn er ekki með réttu pappírana.
Mikið hefur verið rætt um vegg sem forsetaframbjóðandi repúblikana, Donald Trump, segist ætla að reisa meðfram landamærum Bandaríkjanna og Mexíkó. Norsk stjórnvöld hafa áður vakið athygli fyrir aðferðir sínar sem miða að því að koma í veg fyrir að flóttamenn komist til landsins. Þau halda meðal annars úti facebook síðu þar sem hryllingssögur eru sagðar af móttöku flóttamanna í landinu, og hversu erfitt sé að fá hæli þar.
Athugasemdir