Ali Nasir, 16 ára strákur sem íslensk stjórnvöld vísuðu úr landi á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar í sumar, er staddur í Bagdad, býr við slæman aðbúnað og reiðir sig á matargjafir frá ókunnugum.
Þegar Stundin ræddi við Ali í gær sagðist hann vera sársvangur og ekkert hafa borðað síðan á föstudag. Þegar blaðamaður náði aftur tali af honum í dag, mánudag, hafði Ali fengið brauð en sagðist vera með höfuðverk og líða eins og hann væri með hita.
Ali dvelur í hrörlegu geymslurými aftan við kaffihús og sefur þar á gólfinu innan um rykfallin húsgögn og gömul heimilistæki. Hann segir að sér hafi verið afneitað af fjölskyldu sinni í Írak eftir að hann tók upp kristna trú, en eins og frægt er orðið var unglingurinn dreginn út úr Laugarneskirkju með valdi þann 28. júní síðastliðinn og sendur til Noregs. Stundin fjallaði ítarlega um málið á sínum tíma og náði myndbandi af atvikinu sem rataði jafnframt í erlenda fréttamiðla.
Aðeins um tveimur vikum eftir atvikið í Laugarneskirkju synjuðu Norðmenn Ali um hæli og sendu hann til Íraks. Þegar Stundin ætlaði að greina frá þessu í júlí báðu velunnarar Alis um að það yrði ekki gert, enda gæti slík umfjöllun stefnt honum í enn meiri hættu.
Stundin hefur nú komist í samband við Ali, átt í samskiptum við hann og fengið vilyrði hans fyrir þeirri umfjöllun sem hér birtist.
Ali er með síma sem hann eignaðist á Íslandi, getur hlaðið hann og fær að nota internetið af kaffihúsinu sem er við hliðina á geymslunni. Þannig hefur Stundin getað rætt við Ali á Facebook, bæði í gegnum Messenger og Facetime.
Aðspurður hvers vegna hann fer ekki til fjölskyldu sinnar segist Ali ekki eiga neina fjölskyldu lengur. „Það er vegna þess að ég skipti um trú, ég er ekki lengur múslimi heldur kristinn,“ segir hann og bætir því við að hann eigi ekki í önnur hús að venda en geymslurýmið. Hann sýnir blaðamanni vatnsbrúsana sína, teppi og kodda og annan af tveimur stuttermabolum sínum; hann er klæddur í hinn bolinn.
Ali hljómar máttfarinn, hann talar takmarkaða ensku og endurtekur sömu setningarnar í samtali við blaðamann, orð eins og „I love Iceland“, „This is no good“, „I wanna live“, „No food for three days“, „Please help me“ og „I am alone, only me“. Hann segist þrá að koma aftur til Íslands og halda áfram námi sínu, enda sakni hann vina sem hann hafi eignast hér. Ali segir að sig langi að læra, vinna og vera sjálfbjarga – lifa eðlilegu lífi. Hann óttast um líf sitt og segir vopnaðan hóp vera á eftir sér vegna þess að hann tók kristna trú. „Ég vil ekki deyja,“ segir hann.
Athugasemdir