Nígeríski hershöfðinginn Ahmadu Mohammed hefur snúið aftur til starfa eftir tímabundið leyfið frá störfum. Mannréttindasamtökin Amnesty International hafa vakið athygli á þessu en að þeirra sögn sýnir sá gjörningur fram á algjört vanhæfi ríkisvaldsins til að taka á stríðsglæpum. Mohammed hefur verið sakaður um að bera ábyrgð á dauða ríflega átta þúsund gæslufanga.
Amnesty hefur kallað eftir rannsókn á framferði níu hershöfðingja í nígeríska hernum, þar á meðal Mohammed, til að kanna ábyrgð þeirra á dauða þúsunda gæslufanga frá árinu 2011. Mohammed var æðsti yfirmaður þess herafla sem sagður er hafa myrt um 640 óvopnaða gæslufanga, vígamenn í hinum herskáu samtökum íslamista, Boko Haram. Amnesty leggur áherslu á að þrátt fyrir voðaverk þeirra samtaka sé það mannréttindabrot að myrða óvopnaða fanga. Her Nígeríu hefur verið sakaður um ólöglegrar aftökur og pyntingar í baráttu sinni við samtökin. Amnesty bendir á að slík lögbrot ríkisvaldsins auðveldi liðsöfnun Boko Haram.
Athugasemdir