Þráinn Árni Baldvinsson, gítarleikari Skálmaldar, var alinn upp norður í Köldukinn í Þingeyjarsýslu og segist ennþá vera mikill sveitamaður í sér, sérstaklega þegar kemur að mat enda sé hann mikill matmaður.
„Ég er alin upp við gamla góða sveitamatinn og það sem var á borðinu var borðað, ekkert rugl. Mamma var góður kokkur og amma líka, fyrirmyndar uppeldi sem maður fékk þegar kom að góðum mat.“
Þú ert alin upp á hrossabúi en samt borðarðu hrossakjöt, má það?
„Það var aldrei verið að rugla eitthvað með svona hluti. Afi og pabbi voru saman með fjárbú og maður er alinn upp þannig að um leið og búið er að slátra dýrinu þá er þetta orðinn matur. Litlu fallegu lömbin úti á túni? Maður velti þessum hlutum í raun aldrei fyrir sér, þetta var bara lífið og það var eins með hestana. Auðvitað voru einhver hross sem alls ekki voru étin og sum voru heygð í virðingarskyni en annars var þetta bara eins og þetta var; sveitin.“
Athugasemdir