„Ég myndi vilja sjá samfellda þjónustukeðju,“ segir María Einisdóttir, framkvæmdastjóri geðsviðs Landspítalans. „Landspítalinn er það sem kallast þriðju línu þjónusta og á að sinna þyngsta, erfiðasta og veikasta hópnum og gera það vel. Til þess að það sé hægt þarf að efla heilsugæsluna og önnur úrræði, ekki síður en geðsvið Landspítalans. Það þarf að stórefla þjónustu við fólk í nærumhverfi þess og fá meiri aðstoð inn á heimilin.
Á Landspítalanum er opin bráðamóttaka þar sem fólk getur fengið viðtal strax á meðan það þarf að bíða eftir viðtali við lækni á heilsugæslunni. Fyrir vikið fáum við fólk til okkar sem þarf að láta endurnýja lyfseðla eða fá vottorð. Við eigum ekki að sinna slíkum verkefnum. Eins erum við að fá fólk til okkar sem er að koma vegna prófkvíða. Það á að vera sjálfsagt að fá þjónustu við slíkum vanda í nærumhverfi fólks. Ég hefði viljað sjá sálfræðinga í skólakerfinu og þó að ég fagni því mjög að heilsugæslan sé að ráða til sín sálfræðinga þá hefði ég viljað sjá þá mun hraðari þróun í þeim efnum. Nú sjáum við líka að aldraðir sækja mun meira í sálfræðiþjónustu því meðvitundin er að aukast og enginn á að bera harm sinn í hljóði. Þess vegna ætti að vera hægt að bjóða upp á hugræna atferlismeðferð í heilsugæslunni. Reyndar finnst mér að það ætti líka að gera það í skólakerfinu þannig að það sé hægt að hjálpa ungmennum um leið og fyrstu einkennin koma. Af því að það er ýmislegt búið að ganga á áður en fólk stígur þessi þungu skref að leita til okkar en lítil hjálp á leiðinni og jafnvel allt komið í óefni.“
Athugasemdir