Lögreglulið var sent að Hvaleyrarvatni við Hafnarfjörð fyrir skemmstu eftir þrálátar yfirlýsingar á samfélagsmiðlum um líkfund.
Grímur Grímsson, rannsóknarlögreglumaður hjá lögreglunni í Reykjavík, staðfesti þetta í samtali við Stundina um miðnætti. Hann gat þá ekki staðfest að aðgerðin tengdist leitinni að Birnu Brjánsdóttur. Hann sagði þó að enginn skipuleg leit, hvorki hjá lögreglu né hjá björgunarsveitunum, hefði átt sér stað á svæðinu.
Margar óljósar sögusagnir og óstaðfestar fullyrðingar hafa gengið milli fólks um mál Birnu Brjánsdóttur í dag.
Fjölmennur hópur fólks hefur safnast saman á svæðinu. Hópurinn er hvorki á vegum lögreglu né björgunarsveita. Upplýsingar af lögregluútkallinu voru að öðru leyti óljósar.
Blaðamaður Stundarinnar kannaði málið á vettvangi. Þar er enn mikill fjöldi fólks en engar lögregluaðgerðir.
Uppfært klukkan 01.15: Lögregla hefur nú kannað málið á vettvangi á grundvelli þess orðróms sem gekk á samfélagsmiðlum um að lík Birnu hefði fundist í Hvaleyrarvatni. Tilkynningin barst ekki í gegnum hefðbundnar leiðir, með símhringingu í gegnum neyðarlínu. Lögreglan hvetur fólk að tilkynna ábendingar um neyðarlínu en láta vera að dreifa sögusögnum á samfélagsmiðlum.
Stundin ræddi við lögreglu fyrir birtingu fréttarinnar og mun halda áfram að birta fréttir af málinu byggðar á staðfestingum.
Athugasemdir