Íslenska ríkinu ber ekki að greiða ungum manni bætur vegna þess að lögreglumaður þurrkaði myndir úr síma hans. Sigrún Guðmundsdóttir, dómari við Héraðsdóm Reykjavíkur, kvað upp þann dóm en jafnframt var þolandanum ekki gert að greiða kostnað vegna málsins.
Málsatvik voru þau að 12. júlí 2015 var stefnandi, Emil Thorarensen, handtekinn fyrir að hlýða ekki fyrirmælum lögreglu og taka símamyndir á vettvangi. Lögreglan hafði verið kölluð til vegna óláta og slagsmála á tjaldstæði á Neskaupsstað. Sá sem stefnandi átti í deilu við, hlýddi fyrirmælum lögreglu og fór af vettvangi. Hóf stefnandi að taka upp afskipti lögreglunnar á farsíma sinn. Lögreglumaður á vettvangi krafðist þess að stefnandi léti af myndbandsupptöku. Hann varð ekki við því. Stefnandi var í framhaldinu handtekinn og lokaður í fangaklefa í 40 mínútur. Við handtökuna var farsími hans tekinn af honum og eyddi lögreglumaðurinn myndböndum á meðan eigandi símans var frelsissviptur. Hinn handtekni féllst skriflega á að greiða sekt en setti þann fyrirvara að hann mótmælti inngripum lögreglunnar í símann. Emil gerði í framhaldinu bótakröfu á hendur íslenska ríkinu upp á 800 þúsund krónur sem var hafnað.
Ríkið verst
Fulltrúi ríkisins benti á að Emil hafi verið handtekinn þar sem hann hafi ekki hlýtt fyrirmælum lögreglu og hafi þannig brotið gegn 19. gr. lögreglulaga nr. 90/1996. Með því að undirrita sáttina hafi hinn handtekni viðurkennt þá háttsemi með því að samþykkja sáttaboð sem liggur fyrir í málinu. Kröfugerð í stefnu sé þannig í andstöðu við þá háttsemi stefnanda að viðurkenna sekt sína með því að undirrita sáttina. Stefndi taldi í vörn sinni að málinu hefði lokið með undirrituninni.
Varðandi eyðingu á upptökum úr síma stefnanda bendir varnaraðili á að lögregla hafi ítrekað óskað eftir því að stefnandi hætti að taka upp en hann hafi ekki sinnt því. Eins og fram komi í lögregluskýrslu hafi þeim upptökum verið eytt úr símanum enda teknar upp andstætt óskum og fyrirmælum lögreglu. Beri að hafa í huga að síminn hafi verið opinn og enn kveikt á myndavélinni er lögregla hafi tekið hann í sína vörslu.
Lögreglu ögrað
Dómarinn féllst á þessi sjónarmið og sýknaði ríkið af kröfum um bætur. Engu skipti þótt stefnandi hefði greitt sektargerðina með fyrirvara. Dómarinn telur að tilgangur stefnanda með myndbandsupptökunni hafi verið sá að ögra lögreglunni og trufla við störf sín. Samkvæmt lýsingunni hafi upptökunni verið beint að andliti lögreglumannsins sem geti varla haft annan tilgang en reyna að hindra lögregluna í störfum sínum.
„Með vísan til alls þess sem að framan greinir hefur stefnandi sjálfur stuðlað, í skilningi síðari málsliðar 2. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, að þeim aðgerðum sem hann reisir kröfu sína á, og hefur eins og atvikum er háttað fyrirgert rétti til bóta samkvæmt 1. mgr. sömu lagagreinar. Þar fyrir utan er vanreifað af hálfu stefnanda hver miski hans er að hafa ekki andlitsmyndir af lögreglumanni í síma sínum. Að virtri ofangreindri atburðarás er því einnig hafnað að meðalhófs hafi ekki verið gætt. Því er niðurstaða málsins sú að stefndi er sýknaður af öllum kröfum stefnanda,” segir í dómi Sigrúnar Guðmundsdóttur dómara sem jafnfram úrskurðaði að málskostnaður falli niður.
Til skoðunar er að áfrýja málinu til Hæstaréttar.
Athugasemdir