Þjóðleikhúsið hefur bætt við sýningum á leikverkið Stertabendu, í leikstjórn Grétu Kristínar Ómarsdóttur, sem fengið hefur mikið lof gagnrýnenda. Stertabenda var útskriftarverkefni Grétu Kristínar en hún útskrifaðist frá sviðshöfundabraut Listaháskóla Íslands síðasta vor. „Það er ótrúlega gaman þegar innsæi manns er staðfest, þegar maður veit að maður er með eitthvað gott í höndunum,“ segir hún um tækifærið sem Þjóðleikhúsið færði henni strax að lokinni útskrift. „Okkur leið þannig í hópnum. Það var mjög góð og sterk tilfinning í leikhópnum þegar við vorum að vinna þessa sýningu og okkur fannst við eiga meira inni. Það er því ótrúlega þakklátt og auðmýkjandi að fá það staðfest og fá tækifæri til þess að klára sýninguna með því að taka hana upp á næsta stig,“ segir Gréta Kristín.
Stertabenda er upprunalega eftir þýska höfundinn Marius von Mayenburg en Gréta Kristín aðlagaði verkið að íslenskum samtíma. „Við vorum undir miklum áhrifum umræðunnar í kringum Panamaskjölin og reynum að endurspegla það ástand í verkinu,“ segir hún. „Svo tölum við líka um flóttamannavandann og friðþæginguna sem við beitum á okkur sjálf, við setjum bara einhvern í trúðabúning og syngjum „Hjálpum þeim“ í sjónvarpinu. Við komum líka inn á umræður sem voru í Samtökunum ‘78 um hver megi vera með, hver megi vera hinsegin og hver ekki.“
Fáránlegt starf leikarans
Leikhúsmiðillinn sjálfur er til umfjöllunar í Stertabendu. Unnið með blekkingar leikhússins og sjálfsmeðvitund leikara gagnvart áhorfendum.
Athugasemdir