Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, er nú í lykilstöðu vegna mögulegrar stjórnarmyndunar, þar sem Óttarr Proppé, formaður Bjartrar framtíðar, kveðst ekki spenntur fyrir ríkisstjórn með Viðreisn og Sjálfstæðisflokknum og gefur til kynna að hann vilji fremur stjórn með Vinstri grænum og Sjálfstæðisflokknum. Katrín segir í samtali við Stundina að það sé „ekki tímabært“ að endurskoða andstöðu við ríkisstjórnarsamstarf við Sjálfstæðisflokkinn, en vísar á Bjarna Benediktsson. „Maðurinn er að fá umboð og er væntanlega með eitthvað plan.“
Katrín hefur fram að þessu lagt áherslu á ríkisstjórn stjórnarandstöðuflokkanna; Vinstri grænna, Pírata, Samfylkingarinnar og Bjartrar framtíðar. En hún virðist vera ómöguleg. Samfylkingin hefur sagt að hún ætli ekki í ríkisstjórn, og fimmti nauðsynlegi flokkurinn fyrir meirihluta, Viðreisn, leggjst gegn slíku „Píratabandalagi“.
Katrín lýsti því yfir í samtali við Stöð 2 viku fyrir kosningar að VG vildi síður stjórn með Sjálfstæðisflokki. „Mín eigin afstaða er bara í takt við þá stefnu sem mín hreyfing hefur tekið og samþykkt meira að segja í ályktun á þessu ári um að við sjáum fyrir okkur, ef stjórnarandstöðuflokkarnir fái til þess umboð, þá eigi þeir að mynda hér ríkisstjórn að loknum kosningum.“
Katrín hefur hins vegar ekki útilokað alfarið samstarf með Sjálfstæðisflokknum.
Björt framtíð vill Sjálfstæðisflokk og VG
Óttarr tók af skarið í morgun og sagði að hann væri ekki spenntur fyrir hægristjórn með Viðreisn og Sjálfstæðisflokki.
„Við höfum talað fyrir því að við myndum gjarnan vilja sjá einhvern vísi að samstarfi yfir miðjuna, hvort það væri þetta fimm flokka módel eða módel þar sem bæði Sjálfstæðisflokkurinn og VG kæmi að,“ sagði Óttarr við Stundina í morgun. Þar sem Viðreisn hefur bæði útilokað samstarf með fráfarandi ríkisstjórnarflokkum báðum í einu, og lagst gegn fimm flokka ríkisstjórn, stendur eftir möguleikinn á ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna, ásamt þriðja flokki. Þar sem Viðreisn er hægrisinnaðari en Björt framtíð má gera ráð fyrir því að Vinstri grænir vilji fremur fá Bjarta framtíð inn sem þriðja flokkinn heldur en Viðreisn.
Stundin ræddi við Katrínu í morgun.
Hefur afstaða VG til ríkisstjórnarmyndunar með Sjálfstæðisflokknum breyst? Þið vilduð ekki fara í ríkisstjórn með þeim?
„Nei. Það hefur ekkert breyst,“ sagði Katrín.
Bjarni ræðir við alla
Bjarni Benediktsson sagði eftir fund með forseta Íslands á Bessastöðum, þar sem hann fékk stjórnarmyndunarumboð, að hann ætlaði að ræða við alla flokka.
Aðspurð um hvort flokkur hennar sé til í að endurskoða afstöðu sína, og þar með andstöðu gegn ríkisstjórnarsamstarfi með Sjálfstæðisflokknum, segir Katrín: „Ekki tímabært að ræða það. Maðurinn er að fá umboð og er væntanlega með eitthvað plan.“
„Spennandi“ samstarf VG og Sjálfstæðisflokks
Gera má ráð fyrir því að Bjarni Benediktsson muni ræða við Katrínu Jakobsdóttur um mögulegt stjórnarsamstarf, þar sem hann hyggst ræða við alla. Meðal þeirra sem hafa óbeint lagt til slíkt samstarf eru Hanna Birna Kristjánsdóttir, fráfarandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins, í kosningaþætti RÚV á kosninganótt. Hún sagði slíkan möguleika „ekki óspennandi“. Þar sem Björt framtíð telur hægri stjórn vera „ekki spennandi“ er líklegra að reynt verði á 35 þingmanna ríkisstjórn þvert yfir miðju frá hægri til vinstri, með Sjálfstæðisflokknum, Vinstri grænum og Bjartri framtíð, ef VG bakkar frá yfirlýsingum sínum um að vilja ekki ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokki.
Loks er samstarf Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Framsóknarflokks tæknilega mögulegt, en Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar, lofaði fyrir kosningar að ganga ekki í slíkt ríkisstjórnarsamstarf. Í samtali við Stundina rétt í þessu sagðist Benedikt ennþá útiloka Framsóknarflokk og Sjálfstæðisflokk í sameiginlegri ríkisstjórn, en ekki útiloka neinn einstakan flokk. Hann sagði Bjarna ekki hafa haft samband við Viðreisn núna.
Bjarni sagði á Bessastöðum í morgun að hann vildi ekki útiloka Framsóknarflokkinn. „Það er fullur vilji til að ræða við Framsóknarflokkinn.“
Viðreisn ekki í sambandi við Bjarna
Stundin ræddi við Benedikt Jóhannesson um þann möguleika um hálf þrjú í dag.
Hver er staðan Benedikt? Er eitthvað að frétta?
„Ég hef ekki hugmynd um það. Ég hef ekkert frétt annað en það sem ég hef lesið á vefnum.“
Þannig að Bjarni hefur ekkert haft samband?
„Ekki ennþá.“
Er ríkisstjórnarmyndun með Framókn og Sjálfstæðisflokknum út úr myndinni?
„Ekki þeim saman.“
„Ég hef haldið mig við það“
Er það alveg af og frá eins og staðan er í dag?
„Ég hef haldið mig við það en jafnframt skal það ítrekað að ég hef ekki útilokað neinn einstakan stjórnmálaflokk en hef útilokað að ganga inn í núverandi ríkisstjórn.“
Athugasemdir