Aðilar sem segjast vera á vegum íslamska ríkisins, ISIS, hafa brotist inn á vefsíðu Sögusetursins á Hvolsvelli, sem er tileinkuð Brennu-Njáls sögu.
Á vefslóðinni njala.is mátti sjá skilaboð frá hópnum eða aðilanum sem er að baki innbrotinu: „Hakkaður af Íslamska ríkinu. Við erum alls staðar.“
Hluti af árás á heimsvísu
Á síðunni var auk þess birtur fáni Íslamska ríkisins, með áletruðum skilaboðum á arabísku: „Það er enginn Guð, nema Guð.“ Þegar farið var inn á njala.is hljómaði arabískt lag, svokallað „nasheed“. Nú hafa skemmdirnar á síðunni verið lagfærðar.
Skemmdarverkin á njala.is eru hluti af víðtækri tölvuárás sömu aðila um allan heim um helgina. Fyrirtæki, bruggverksmiðjur, dýragarður, veitingastaðir, hótel og fleira hafa orðið fyrir barðinu á þeim. Í skilaboðunum frá ISIS var vísað á slóð yfir á Facebook-síðu með lista yfir vefsíður um allan heim sem höfðu verið hakkaðar. Þeirri Facebook-síðu hefur nú verið lokað.
Undanfarna mánuði hefur Íslamska ríkið, eða fylgismenn þess, staðið fyrir vef-jihad, eða „heilögu stríði“ á vefnum, sem hefur beinst gegn kirkjum, bandaríska ríkinu og fleiri aðilum.
Boða píslarvætti með myndum af íslenskri náttúru
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem fréttir af herskáum íslamistum tengist Íslandi. Síðasta haust kom á daginn að ISIS væri með skráð lén á Íslandi, en því var lokað í kjölfarið af ákvörðun ISNIC, sem sér um útleigu íslenskra vefslóða. Var það í fyrsta sinn sem ISNIC lokaði vefsvæði vegna innihalds efnis á síðunni.
Ekki er líklegt að árásin á Njáluslóðir tengist þeim aðgerðum.
Þá er eitt vinsælasta myndbandið á Youtube, sem hefur skírskotun til heilags stríðs, lagið Hermenn Allah spilað yfir myndskeiðum af íslenskri náttúru. Yfir tvær milljónir manna hafa horft á myndbandið. Þar er heitið á hermenn Allah og fagnað deginum sem píslarvætti verður náð.
Athugasemdir