Hanna Birna Kristjánsdóttir, þáverandi innanríkisráðherra, styrkti Hjördísi Svan Aðalheiðardóttur um að minnsta kosti eina milljón króna úr ráðstöfunarfé ráðherra. Þetta kemur fram á Vísi en samkvæmt þeirri umfjöllun var um að ræða tvær greiðslur sem báðar voru að upphæð 500 þúsund krónur; annars vegar vegna lögfræðikostnaðar í forræðisdeilu Hjördísar og hins vegar vegna „baráttu Hjördísar Svan fyrir börnum sínum“. Hanna Birna Kristjánsdóttir er þó ekki eini innanríkisráðherrann sem styrkti Hjördísi Svan. Í tíð Ögmundar Jónasson var hún styrkt um tæplega eina milljón króna.
DV greindi hins vegar frá því árið 2014 að styrkur Hönnu Birnu sem átti að fara í lögfræðikostnað fór í allt annað, styrkurinn fór í greiða hluta kostnaðar við leigu á flugvél sem flutti Hjördísi Svan og dætur hennar þrjár til Íslands haustið 2013. Hjördís var dæmd í Danmörku í eins og hálfs árs fangelsi fyrir þann gjörning sem taldist ólöglegt brottnám. Því er hægt að segja að íslenska ríkið hafi styrkt lögbrot þegar það styrkti Hjördísi Svan. Þó skal tekið fram að það var ekki gert með vitneskju innanríkisráðuneytisins. Peningurinn var millifærður úr ráðuneytinu og yfir á föður Hjördísar Svan sem millifærði féð yfir á Jón Kristinn Snæhólm fjölmiðlamann sem greidd að lokum fyrir flugvélina.
Athugasemdir