Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata, gagnrýnir harðlega fyrirhugaðar mótmælaaðgerðir fyrir utan heimili Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra.
„Þetta er algerlega hræðileg hugmynd! Sama hvað hverjum finnst um Bjarna Benediktsson, eða nokkurn annan stjórnmálamann, þá hefur maðurinn rétt á því að geta verið í friði heima hjá sér þar sem hann geymir fjölskylduna og einkalífið. Fyrir utan hann sjálfan, þá auðvitað fjölskylda hans sjálf,“ skrifar hann á Facebook-síðu viðburðarins. Alls hafa 13 mann boðað komu sína á mótmælin.
„Hvað á fjölskyldan mannsins að halda þegar mótmælendur safnast saman fyrir framan heimili hennar? Hversu verulega á hún að þurfa að velta fyrir sér hvort hlutum verði grýtt í gluggana? Á hún að fara út og spyrja? Hvernig á hún að meta hvort það sé öruggt?“ spyr Helgi og bætir við:
„Eru hugsanlegir mótmælendur búnir að velta fyrir sér hvernig það sé að vera í sporum fjölskyldumeðlims sem þarf að komast út? Eða þess sem þarf að komast inn? Eiga fjölskyldumeðlimir Bjarna Ben, sem meðan ég man, eru ekki einu sinni allir fullorðnir, að þurfa að laumast inn á og út af sínu eigin heimili?“
Helgi spyr hvort málstaðurinn sé í raun og veru svo mikilvægur að það réttlæti aðgerðir sem þessar.
„Jafnvel ef við gleymum því að í slíku felst viðurkenning á siðferðislegu ólögmæti aðgerðarinnar, þá má rétt eins spyrja um málstaðinn; trúir fólk því virkilega að þetta verði málstað mótmælenda til framdráttar? Að blanda fjölskyldu Bjarna Benediktssonar, þar á meðal börnum hans, inn í reiðikast fjölmenns hóps fyrir utan heimili hennar? Slíkt er ekki málstaðnum til framdráttar, heldur til þess eins fallið að veita varðhundum valdsins fullkomlega lögmætt tækifæri til að færa umræðuna frá því sem mótmælendur eru að mótmæla, yfir á mótmælendurna sjálfa - og það væri rétt hjá þeim, vegna þess að þessi aðgerð er öfgafull, siðferðislega röng og til þess eins að draga úr lögmæti þess málstaðar sem mótmælendur telja sig berjast fyrir. Þessi aðgerð mun einungis styrkja stöðu valdhafa, ofan á að vera siðferðislega röng af ofangreindum ástæðum.“
Hann lýkur máli sínu með eftirfarandi orðum: „Þetta er skelfileg hugmynd og ég hvet aðstandendur þessa til að hætta við þetta strax.“
Athugasemdir