Óli Björn Kárason, varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins, vill að Alþingi hverfi af braut fastra fjárlaga til sjúkrahúsa og að samið verði um rekstur heilsugæslustöðva við einkaaðila. Þetta kemur fram í pistli eftir hann sem birtist í Morgunblaðinu í dag, en þar tekur hann undir hugmyndir Sigríðar Á. Andersen, þingkonu sama flokks, um aukinn einkarekstur í heilbrigðiskerfinu.
Óli Björn fagnar því að Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra skuli hafa ákveðið að bjóða út rekstur a.m.k. tveggja heilsugæslustöðva á næstu mánuðum. „Með því verður stigið mikilvægt skref í uppbyggingu heilsugæslunnar, betri nýtingu fjármuna og bættri þjónustu,“ skrifar varaþingmaðurinn sem telur að gjörbreyta þurfi fjármögnun heilbrigðisþjónustunnar á Íslandi og þá ekki síst sjúkrahúsanna, beita forskrift og greiða fyrir unnin skilgreind verk.
Athugasemdir