Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, hefur áhyggjur af því að neikvæð viðbrögð stjórnmálamanna og annarra við fregnum af sölu á hlut í Arion banka kunni að hafa skaðleg áhrif á íslenskan fjármálamarkað.
Þessari skoðun sinni lýsti hann í umræðum á þinginu rétt í þessu undir liðnum störf þingsins. „Ég sjálfur hef talsverðar áhyggjur af viðbrögðum margra, og ekki síst stjórnmálamanna, við þessum fregnum um sölu á 30 prósenta hlut í Arion banka,“ sagði Brynjar. „Ég skil það að við höfum áhyggjur af eignarhaldi og ég vil fá upplýsingar. En við verðum samt að passa okkur að fara ekki í óyfirvegaða umræðu því að hún getur verið skaðleg fyrir okkur öll. Hér er um að ræða fjármálafyrirtæki sem þarf á trúverðugleika að halda. Við erum með kerfi, eftirlitsstofnun, FME, sem hefur eftirlit með þessu, sér um framkvæmd laganna og það er mikilvægt að við förum ekki fram úr okkur í þessari umræðu.“
Fordæmdi Brynjar hvers kyns hvatningu um áhlaup á fjármálafyrirtæki á stærð við Arionbanka. „Þá erum við að skaða okkur sjálf og skaða íslensk fjármálafyrirtæki og við þurfum þess vegna að fara farlega. Ég legg því til að umræðan um þetta verði yfirveguð og við förum mjög varlega í allar yfirlýsingar. Vegna þess að það sem við segjum getur haft mikil áhrif á hvernig aðrir hegða sér.“
Athugasemdir