Torfi Stefán Jónsson, kennarinn í félagsfræði 303 í Fjölbrautaskólanum í Ármúla, segir í samtali við Stundina glæra sem vakti gagnrýni Hannesar Hólmsteins sé byggð á bókinni Stjórnmálafræði eftir Magnús Gíslason. Torfi segist skráður meðlimur í Vinstri hreyfingunni - grænu framboði, en vonar þó að það komi ekki að sök. Námsbókin er ókeypis og má nálgast hér.
Stundin ræddi við einn nemanda í félagsfræði 303 og taldi hann mikla vinstrislagsíðu í áfanganum. Nemandinn er hægrisinnaður að eigin sögn. „Ég myndi segja að það hafi ekki verið heildstæða slagsíða í þessum tíma, en þar sem var tækifæri fyrir hana var slagsíða. Mér hefur alltaf fundist vera slagsíða í námi en ég hef aldrei séð það með svona tærum hætti og þarna,“ segir nemandinn.
Aðeins stikkorð
Torfi bendir á að á glærunum séu einungis stikkorð og samanburður sé betur skýrður í námsbók. „Þessar glærur eru unnar beint upp úr bókinni Stjórnmálafræði eftir Magnús Gíslason. Það eru þarna stikkorð á glærunni og síðan er texti í tengslum við það. Þarna er borin saman eignarréttur og mannréttindi. Í bókinni er svo ágætis dæmi. Í stuttu máli er borið saman tilfelli þar sem einkaaðili á kolanámufyrirtæki og ákveður að loka því. Það er hans eignarréttur, hann á þá rétt á að loka námunni vegna þess að hann á hana. Vinstra viðhorf væri þá að það séu mannréttindi að vinna þar. Þetta er bara ein glæra sem segir voða lítið,“ segir Torfi.
Óvíst með vinstri slagsíðu
Torfi segist skýra sína stjórnmálaskoðun í upphafi áfangans en er ekki reiðubúinn að tæma um það sjálfur hvort hann sé með vinstri slagsíðu. „Ég segi alltaf í byrjun þegar ég kenni áfangann hvar ég stend í pólitík, að ég sé skráður í Vinstrihreyfinguna - grænt framboð, en ég hef ekki alltaf kosið flokkinn. Síðan ræði ég þessar hugmyndir abstrakt. Það verið að tala um vinstri slagsíðu, ég get ekki sagt af eða á um það. Kannski flokkast það þannig, kannski ekki. Þessi glæra ein og sér er algjörlega slitin úr samhengi,“ segir Torfi.
„Þá var það kommúnismi Karls Marx.“
Hvergi minnst á blóðuga sögu
Einn nemandi sem tók prófi í gær upp úr námsefninu telur að það hafi verið skýr vinstrislagsíða í námsefninu. Sjálfur segist hann vera hægrimaður og óskar hann eftir að nafn hans komi ekki fram svo ummæli hans hafi ekki áhrif á einkunnargjöf. „Það voru þrjú atriði í þessum glósum sem hittu í þetta hugmyndafræðilega mark. Eitt sem mér fannst sérstaklega athugavert var að það var ítrekað talað um jafnaðarstefnu. Þá var það kommúnismi Karls Marx. Jafnaðarstefna er nú mikið líkari því sem Samfylkingin stundar, þó það sé auðvitað deilumál eins og allt svona. Síðan seinna í glósunum er talað um umbótasinnaða jafnaðarstefnu og byltingarkennda jafnaðarstefnu. Þarna er auðvitað verið að tala undir rós um sósíalisma og kommúnisma. Flestir væru allavega sammála um það að þetta er veigrunaryrði. Það eiga allir að vita hvað kommúnismi er og það er hvergi minnst á blóðuga sögu hans. Svo er talað um að eignarréttur sé stuldur, ég held að það þurfi aðeins að brýna að það betur hvaðan þetta er komið,“ segir nemandinn.
Gagnrýndi framsetninguna í prófi
Líkt og fyrr segir tók nemandinn próf upp úr námsefninu í gær. Hann segist hafa notað tækifærið til að gagnrýna framsetninguna. „Það er ekkert hægt að fullyrða svona um hægri vinstri skallann. Mér finnst þessi skali merkingarlaus ef hann er ekki aðeins áþreifanlegri en þetta. Ef maður horfir á þennan skala í glósunni þá gat maður ekki ímyndað sér hvað lág þarna að baki og þá er hann merkingarlaus ef þú getur ekki heimfært hann á neitt. Ég hef notað þær forsendur fyrir þennan skala að vinstri sé meiri ítök í einkalíf fólks og fyrirtækja meðan hægri er minni ítök,“ segir nemandinn.
Athugasemdir